Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ólíklegt að Birna hafi farið inn í bílinn

Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ? / Lögreglan á höfuðborgarsvæ?
Lögregla telur ólíklegt að Birna Brjánsdóttir, sem ekkert hefur spurst til síðan á aðfaranótt laugardags, hafi farið um borð í rauðan Kia Rio, sem sást við Laugaveg á sama tíma og Birna.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði eftir því að ökumaður Kia Rio bifreiðar, sem sást á öryggismyndavélum við Laugaveg 31 aðfaranótt laugardags, á sama tíma og Birna Brjánsdóttir, tvítug stúlka sem nú er leitað, var þar á ferð, hafi samband við lögreglu. Ökumaðurinn kunni að búa yfir upplýsingum sem gangast geti við leitina að Birnu.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í Kastljósi í kvöld að hann telji ekki miklar líkur á að bíllinn tengist málinu, en þó sé mikilvægt að ná tali af ökumanninum.

„Tíminn frá því því að við sjáum hann í myndavél við Laugaveg 31, (...)og þar til hann kemur inn í aðra myndavél aðeins neðar, eru fimtán sekúndur. Fimmtán – sextán sekúndur. Og á þeim tíma er ólíklegt að það takist að stöðva bílinn og hleypa inn farþega án þess að við sjáum hann.“

Sagði Grímur. Lögreglan telji frekar langsótt að Birna hafi farið um borð í bílinn.

Á blaðamannafundi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag sagði Grímur að ein skýringin á því að ökumaður rauða Kia Rio hafi ekki gefið sig fram kunni að vera að hann hafi ekki verið Íslendingur. Þess vegna verði send út tilkynning til fjölmiðla á ensku síðar í kvöld.