Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ólíklegt að bankarnir verði seldir í ár

10.01.2019 - 21:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsætisráðherra sér ekki fyrir sér að hlutur ríkisins í bönkunum verði seldur á þessu ári. Miklu máli skipti að ríkið verði áfram ráðandi fjárfestir í Landsbanka, en selja megi Íslandsbanka.

Ákvæði um sölu bankanna hefur verið í lögum í nokkur ár, sem og heimildir í fjárlögum til sölu þeirra. Bankastjóri Landsbankans sagði í fréttum RÚV í vikunni að bankinn væri tilbúinn í söluferli. 

Mikilvægt að söluferlið verði gagnsætt

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirstrikar að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé talað um að draga úr eignarhaldi ríkisins á bönkunum á kjörtímabilinu. Hvítbók um fjármálakerfið er komin, en bíður umræðu á Alþingi. 

„Til dæmis fannst mér áhugavert að sjá að almenningur er mjög jákvæður í garð eignarhalds ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Mér fannst líka mjög mikilvæg skilaboð til stjórnvalda að almenningur leggur mikla áherslu á gagnsæi, bæði við sölu á bönkum en líka í eignarhaldi,” segir hún. 

Vill halda Landsbanka en ekki Íslandsbanka

Horfa verði á þær breytingartillögur sem eru komnar fram; varnarlínu á milli viðskiptabanka- og fjárfestingastarfsemi, miðlægan skuldagrunn, aukið samstarf, upplýsingatækni á fjármálamarkaði og fleira. Hún vill byrja á lagabreytingum og tryggja að söluferlið verði gegnsætt. Þó að heimild sé í fjárlögum til sölu á Íslandsbanka og hlut í Landsbanka, eins og oft áður, segist Katrín ekki sjá það fyrir að bankarnir verði seldir á þessu ári. 

„Það hefur ekki verið mín sýn eða ríkisstjórnarinnar að halda eignarhaldi yfir Íslandsbanka, þar sem við höfum sagt er að það skipti miklu máli að Landsbankinn, að þar verði ríkið áfram leiðandi fjárfestir,” segir Katrín. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður