Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ólíkindatólið Super Mario Balotell

Mynd með færslu
 Mynd:

Ólíkindatólið Super Mario Balotell

22.08.2014 - 19:00
Hið fornfræga knattspyrnulið Liverpool er að ganga frá kaupum á hinum skrautlega Mario Balotelli. Enginn efast um hæfileikana en hegðun hans innan vallar og utan er afar sérstök, svo ekki sé meira sagt.

Mario Balotelli fæddist í Palermo á Sikiley, sonur innflytjenda frá Ghana en fjölskyldan fluttist til Brescia þegar hann var tveggja ára. Fjölskylduaðstæður voru erfiðar og yfirvöld ákváðu að Balotelli færi til fósturforeldra þegar hann var þriggja ára. Fósturforeldrarnir eru gyðingurinn Silvia en foreldrar hennar komust lífs af úr helförinni og Francesco Balotelli. Upphaflega var hann hjá fósturforeldrunum á virkum dögum en blóðforeldrunum um helgar. Helgarheimsóknunum fækkaði smám saman og hættu síðan alveg. Mario tók upp ættarnafnið Balotelli og sótti um ítalskan ríkisborgararétt. Hann hefur ekki skipt sér af blóðforeldrum sínum síðan.

Mario Balotelli var sextán ára þegar Inter Milan keypti hann árið 2007. Þjálfarinn Roberto Mancini setti hann beint í aðalliðið, enda hæfileikarnir gríðarlegir. José Mourinho tók við liði Inter og var samband hans við Balotelli afar stirt. Eftir ítrekuð hegðunarvandamál tók Mourinho hann úr aðalliðinu í janúar 2009 og lét hann æfa með varaliðinu. Steininn tók þó úr í mars 2010 þegar Balotelli mætti í sjónvarpsþátt klæddur í liðsskyrtu erkióvinarins í AC Milan. Stuðningsmenn Inter voru vitanlega æfir en Mancini sem þá var orðinn knattspyrnustjóri hjá Manchester City nýtti tækifærið og fékk hann til City. Hegðunarvandamálin héldu þó áfram og náðu hámarki þegar kom til handalögmála milli Mancini og Balotelli á æfingasvæðinu í janúar 2013. Nokkrum vikum síðar var hann kominn til AC Milan. Balotelli hefur ítrekað orðið fyrir barðinu á kynþáttafordómum og barist hart gegn þeim. Hann varð fyrsti svarti leikmaðurinn til að spila fyrir ítalska landsliðið í stórkeppni þegar Ítalía mætti Spánverjum í fyrsta leik á Evrópumótinu árið 2010. Hann var sá eini sem fékk sérstaka áheyrn hjá Frans páfa í Vatikaninu.

Balotelli er afar hæfileikaríkur leikmaður, sterkur, leikinn og fljótur. Hann er oft sakaður um leti og á það til að hverfa heilu og hálfu leikina. Hann er aukaspyrnusérfræðingur og líklega besta vítaskytta heims. Rauðu spjöldin sem hann hefur fengið á ferlinum eru óteljandi og hann hefur ítrekað lent í útistöðum við liðsfélaga sína á æfingasvæðinu. Eitt sinn fékk hann fjögurra leikja bann fyrir að reyna að traðka á hausnum á Scott Parker í viðureign City og Tottenham. Knattspyrnustjórinn José Mourinho hefur sagt að það sé útilokað að stjórna honum. Balotelli neitar því að vera brjálaður eins og Mancini hefur ítrekað sagt en viðurkennir að hann geri afar undalega hluti á köflum. Einu sinni voru hann og vinir hans handteknir fyrir að skjóta úr loftbyssum á aðaltorginu í Milan og hann lét síðar mynda sig með tveimur þekktum mafíósum. Nokkrum dögum eftir að hann fór til Manchester City
 lenti hann í árekstri á leið á æfingu. Lögreglan spurði hvurn fjandann hann væri að gera með fimm þúsund pund eða eina milljón króna í reiðufé. "Af því að ég er ríkur," svaraði Balotelli. Einu sinni keyrði hann inn í kvennafangelsi til þess að skoða sig um og síðar kastaði hann dartpílu að unglingaliðsmanni, af því bara. Hann var nappaður fyrir að reykja inni á klósetti í liðsferð með AC Milan og það er ógleymanlegt öllum sem það sáu, þegar hann komst ekki með nokkru móti í liðstreyjuna fyrir Evrópuleikinn gegn Dynamo Kiev í mars 2011. Þetta var bara of flókið. Hann og vinir hans kveiktu í flugeldum inni á baðherbergi heima hjá honum og kveiktu í húsinu. Daginn eftir spilaði hann gegn Manchester United, skoraði og fletti sig klæðum þannig að sást í áletrunina - Af hverju alltaf ég. Síðar í vikunni var gerður risavaxinn bálköstur í mynd Balotelli og hann sjálfur útnefndur sendiherra flugelda á Manchester svæðinu. Hann hefur brotið útgöngubann í keppnisferðum til að fá sér í gogginn og ruðst inn á blaðamannafundi hjá þjálfurum liða sinna. Balotelli var valinn efnilegasti knattspyrnumaður heims árið 2010 og sagði þá að aðeins einn verðlaunahafi hefði verið örlítið betri en hann sjálfur, Lionel Messi. Margir Bretar urðu sárir þegar hann sagðist ekkert kannast við Jack Wilshere sem þá var helsta vonarstjarna Breta og kom næstur Balotelli í kjörinu. Tímaritið GQ valdi hann best klædda mann veraldar og Time Magazine setti hann á lista yfir 100 áhrifamestu menn veraldar. Hann er mikill bílaáhugamaður og á meðal annars Range Rover Evoque, Ferrari 458 Spider, Bentley Continental GT, Maserati GT og Audi RG V10. Hann iðkar búddisma og hefur lagt flöskuna alfarið á hilluna. Hann er nýbúinn að viðurkenna barn sem hann eignaðist fyrir tveimur árum en er trúlofaður belgísku þokkadísinni Fanny Neguesha. Balotelli er ótrúlega hæfileikaríkt ólíkindatól

Tengdar fréttir

Fótbolti

Ástsýki og fátækt Suárez

Fótbolti

Tiki-taka reitabolti Spánverja gjaldþrota

Fótbolti

Messi ekki vinsæll í Argentínu