Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ólíkar áherslur flokka í stjórnarmyndun

22.11.2016 - 15:09
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Það gæti reynst flókið fyrir flokkana fimm að samræma stefnu í stærstu málum eins og skattamálum og sjávarútvegsmálum. Fulltrúar flokkanna fimm, sem freista þess nú að mynda starfhæfan stjórnarmeirihluta, telja að erfiðast gæti orðið að ná saman um skattamál, sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og jafnvel stjórnarskrárbreytingar. Nokkuð ber í milli í stefnu einstaka flokka á þessum sviðum.

Í skattamálum er það stefna VG að stórefla skatteftirlit og -rannsóknir, nota þrepaskipt skattkerfi sem jöfnunartæki og leggja þannig aukna áherslu á framlög þeirra ríkustu í sameiginlega sjóði. Þetta þýðir væntanlega hátekjuskattur. Að auki er það stefna VG að hækka fjármagnstekjuskatt til samræmis við tekjuskatt. Samfylking vill skoða að fjölga skattþrepum og taka upp hátekjuskatt. Viðreisn vill aftur á móti hóflega skattlagningu og einfalt skattkerfi. 

Ólíkar áherslur í sjávarútvegsmálum

Í sjávarútvegsmálum er það stefna VG að innheimta auðlindagjald og tryggja þannig að arðurinn af sjávarútvegsauðlindinni renni til þjóðarinnar. VG vill fylgjast með reynslu Færeyinga af uppboði á aflaheimildum og telur koma til greina að hluti aflaheimilda verði boðnar upp á markaði hér á landi. Loks þurfi að auka strandveiðar og byggðakvóta. Viðreisn vill setja hluta kvótans á markað á hverju ári í stað þess að innheimta veiðileyfagjald. Þannig fáist markaðstengt gjald fyrir afnot af auðlindinni. Samfylkingin vill líka bjóða upp kvóta, tíu til tuttugu prósent á ári en Björt framtíð vill samspil veiðigjalda og uppboða. Píratar vilja allan afla á markað og frjálsar handfæraveiðar.

Afar skiptar skoðanir um landbúnað

VG boðar endurskoðun á nýgerðum búvörusamningi í samræmi við endurskoðunarákvæði í því augnamiði að tryggja heilnæma og örugga matvælaframleiðslu og að hagur bænda og neytenda fari saman. Viðreisn vill, aftur á móti, að landbúnaður lúti lögmálum almennrar samkeppni, stuðningi við bændur verði breytt þannig að hann stuðli að aukinni hagræðingu, framleiðsluaukningu og nýsköpun og að allri framleiðslu- og sölustýringu af hálfu ríkisins verði hætt. Viðreisn vill afnema tolla og innflutningshöft á landbúnaðarvörur. Píratar vilja nýtt landbúnaðarkerfi með breyttum stuðningi við bændur, afnema gildandi búvörusamning, afnema tolla og innflutningshömlur á matvæli og afnema undanþágur frá samkeppnislögum. Björt framtíð barðist gegn samþykkt búvörusamninganna og boðar breyttan stuðning við matvælaframleiðslu.

Mismikil áhersla á stjórnarskrána

Píratar leggja ríka áherslu á að ný stjórnarskrá verði samþykkt á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. VG, Samfylkingin og Björt framtíð vilja sömuleiðis ljúka endurskoðun stjórnarskrár á sama grunni. Viðreisn boðar að ný stjórnarskrá verði til í áföngum samkvæmt skýru og tímasettu ferli. 

Um þessi mál, og fleiri reyna fulltrúar flokkanna nú að ná samkomulagi.

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV