Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ólígarki stefnir Bandaríkjastjórn

16.03.2019 - 04:35
Mynd með færslu
Oleg Deripaska. Mynd:
Rússinn Oleg Deripaska stefndi bandaríska fjármálaráðuneytinu í dag. Hann sakar ráðuneytið um brot gegn sér með því að beita sig viðskiptaþvingunum og vera tekinn fyrir í rannsókn bandarískra yfirvalda á meintum afskiptum Rússa af bandarískum stjórnmálum.

Í stefnu Deripaska segir að virði eigna hans hafi fallið um sjö og hálfan milljarð bandaríkjadala eftir að hann og sex aðrir rússneskir ólígarkar voru beittir viðskiptabanni í apríl í fyrra.

Milljarðamæringurinn Deripaska var beittur viðskiptaþvingunum þar sem hann er talinn náinn stuðningsmaður Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta. Auk þess átti hann viðskipti við Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Bandaríska viðskiptaráðuneytið beitti innsta hring Pútíns viðskiptaþvingunum fyrir meint afskipti Rússa af kosningum í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum. Deripaska krefst þess að alríkisdómari skipi ráðuneytinu að aflétta þvingunum gegn sér. Þær séu byggðar á fölskum orðrómi og áratugagömlum ásökunum fjandvina hans úr viðskiptalífinu.

Deripaska er títtnefndur í rannsókn Robert Muellers, sérstaks saksóknara í Rússlandsrannsókn bandarískra yfirvalda. Hann hefur þó ekki verið ákærður. Samkvæmt málsgögnum Muellers bauð Manafort Deripaska að fá upplýsingar um stöðu mála og gögn úr skoðanakönnunum fyrir forsetakosningarnar 2016. Tilboð Manafort barst í gegnum fyrrum viðskiptafélaga hans, Konstantin Kilimnik, sem bandarísk yfirvöld telja vera rússneskan njósnara.

Á svipuðum tíma og Deripaska lagði fram kæruna ákváðu Evrópusambandið, Kanda og Bandaríkin að beita fleiri rússneska einstaklinga og stofnanir frekari þvingunum. Þær koma reyndar ekki til vegna afskipta Rússa af kosningum, heldur stríðsbrölti þeirra á Krímskaga að sögn Deutsche Welle.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV