Ólíðandi að ríkisstjórnin styðji framboð Braga

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjórn ungliðahreyfingar Vinstri hreyfingarinnnar, græns framboðs segir ólíðandi að Bragi Guðbrandsson, forstjóri barnaverndarstofu, hafi verið útefndur sem frambjóðandi Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og njóti stuðnings ríkisstjórnarinnar í því framboði. Þetta kemur fram í ályktun sem framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna sendi frá sér í kvöld, þar sem þess er krafist að stuðningur við Braga verði afturkallaður.

Í ályktuninni, sem birt er á Facebook,  segir að Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafi það hlutverk að tryggja að þjóðir fari eftir Barnasáttmála samtakanna, en Bragi hafi verið gagnrýndur fyrir að fara ekki ávallt eftir honum við sín störf. Starfsmenn barnaverndarnefnda víða um land hafi stigið fram síðan í haust og greint frá andlegu ofbeldi Braga, ófaglegum vinnubrögðum og því, að Bragi hafi beitt sér í kynferðisbrotamálum með óviðaeigandi hætti.

Er þess krafist í ályktuninni að Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, dragi útefningu Braga til baka, enda eigi maður sem sakaður sé um alvarleg brot í starfi og mismunun í málsmeðferð ekki að vera fulltrúi Íslands í nefnd sem þessari. Börn eigi alltaf að njóta vafans, segir í ályktun Ungra vinstri grænna. Ályktunina má lesa í heild sinni hér að neðan.

„Ung vinstri græn telja ólíðandi að Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu hafi verið útnefndur sem framboðsefni Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. 

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur það hlutverk að tryggja að þjóðir fari eftir Barnasáttmálanum en gagnrýni á vinnubrögð Braga beinast meðal annars að því að hann sjálfur og Barnaverndarstofa færu ekki ávallt eftir Barnasáttmálanum. 

Frá því í nóvember hafa starfsmenn barnaverndarnefnda víða um land stigið fram og sagt frá andlegu ofbeldi af hálfu Braga, ófaglegum vinnubrögðum og því að Bragi hafi hlutast til í kynferðisbrotamálum. 

Ung vinstri græn krefjast þess að Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, dragi útnefningu Braga Guðbrandssonar til baka. Maður sem sakaður er um alvarleg brot í starfi og mismunun í málsmeðferð á ekki að vera fulltrúi Íslands í nefnd sem þessari. Börn eiga alltaf að njóta vafans.“ 
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi