Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ólíðandi að mannréttindi víki fyrir fjárlögum

11.11.2017 - 15:01
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Ekki er með neinu móti hægt að fallast á það að lágmarks mannréttindi séu látin víkja fyrir ákvæðum fjárlaga. Þetta segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Áslaugar Ýrar Hjartardóttur, ungrar daufblindrar konu, sem synjað var um túlkaþjónustu í sumarbúðum.

Hæstiréttur staðfesti á fimmtudag þann dóm Héraðsdóms Reykjavíkur að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefði verið heimilt að synja beiðni Áslaugar Ýrar um túlkaþjónustu í sumarbúðum í Svíþjóð. Þar var haldið námskeið fyrir ungt daufblint fólk víða að úr heiminum. Námskeiðið var bæði til menntunar og valdeflingar. Þar bauðst henni tækifæri til að eiga samskipti við ungt fólk í sömu aðstæðum og hún. Að sögn Páls Rúnars buðust sænsk yfirvöld til að greiða uppihald og ferðakostnað túlkanna. Áslaug Ýr tók lán til að greiða fyrir túlkaþjónustu á námskeiðinu. 

Samskiptamiðstöðin synjaði beiðninni á þeim forsendum að fjármunir væru takmarkaðir. Áslaug Ýr krafðist einnar milljónar króna í miskabætur. Páll Rúnar segir ljóst að með niðurstöðu Hæstaréttar sé brotið á rétti Áslaugar Ýrar. „Henni eiga að vera tryggð ákveðin réttindi samkvæmt stjórnarskrá. Hún á að geta treyst því að sett séu lög um hennar réttindi en það hefur ekki verið gert,“ segir Páll Rúnar. Hann bendir á að stjórnarskráin hafi verið talin fela í sér lágmarksréttindi. „Sá réttur víkur ekki fyrir ákvæðum fjárlaga sem eru óæðri réttarheimild.“

Þau rök Samskiptamiðstöðvarinnar að ekki hafi verið til nægir fjármunir til að veita Áslaugu Ýr túlkaþjónustuna standast ekki, að mati Páls. „Það er líkt og að ef kostnaður við alþingiskosningar væri vanáætlaður, að þá mætti svipta ákveðna þjóðfélagshópa kosningarétti sínum á þeim grundvelli að ekki væru til fjármunir til að allir fengju að kjósa.“