Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ólga innan Framsóknar vegna ummæla oddvita

Mynd með færslu
 Mynd:
Mikil ólga er innan Framsóknarflokksins eftir að oddvitinn í Reykjavík sagði í gær að hún vildi afturkalla úthlutun á lóð til Félags múslima á Íslandi. Engin af þeim konum sem skipa fjögur efstu sætin vill gefa upp afstöðu sína til byggingu mosku í Reykjavík. Fimmti maður sagði sig frá listanum.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins og flugvallarvina, vill að borgarbúar kjósi um hvort moska rísi í Reykjavík en vill ekki gefa sjálf upp sína afstöðu. Guðfinna Guðmundsdóttir, sem er í öðru sæti, tekur undir orð oddvitans og vill að lóðin verði tekin til baka. En engin af þeim fjórum konum sem skipa efstu sæti listans vilja gefa upp afstöðu sína til þess hvort moska rísi í borginni yfir höfuð. 

Sveinbjörg sagði í gær við Vísi og RÚV að hún vildi afturkalla lóðarúthlutun til Félags múslima á Íslandi. Mikið hefur verið rætt um málið á samfélagsmiðlum síðan þá og herma heimildir fréttastofu að mikil ólga sé innan Framsóknarflokksins vegna ummæla oddvitans. Í gærkvöld ákvað Hreiðar Eiríksson, sem skipaði fimmta sætið, að segja sig frá listanum. 

„Ég taldi reyndar að þetta væri ekki afstaða framboðsins. Ég hafði síðan samband við fólk innan framboðsins og spurðist fyrir um þetta, og í framhaldi af því sá ég að það gat ekki farið saman við mína afstöðu að styðja skoðun af þessu tagi," segir hann. 

Framsóknarflokkurinn mældist með rúmlega fjögurra prósenta fylgi í síðustu skoðunarkönnun, en þarf á milli sex og sjö prósent til að ná manni inn í borgarstjórn.

„Ég hef svolítið verið að fylgjast með atburðum úti í Evrópu og þar virðast framboð sem daðra við svona sjónarmið vera að draga til sín ákveðið fylgi," segir Hreiðar. „En ég verð að leyfa mér að vona að þróunin verði ekki þannig á Íslandi."

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins vill ekki tjá sig um málið og ekki heldur Helgi Haukur Hauksson, formaður ungra Framsóknarmanna.  Oddvitar annarra framboða sögðu við fréttastofu að þeir væru fylgjandi byggingu mosku í Reykjavík.

[email protected]