Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ólafur:„Spurðu stjórnendur Kaupþings“

17.05.2017 - 20:06
Mynd: Skjáskot / RÚV
Ólafur Ólafsson segir það ekki vera eftirsóknarvert að vera spurður spjörunum úr óundirbúinn, eins og hann hafi gert á fundi stjórnskipunar og eftirlitsnefndar í dag. Hann ítrekaði fyrri yfirlýsingar um að hann hefði ekki hugmynd hver ætti félagið Dekhill sem fékk hinn helminginn af hagnaðinum af þessum viðskiptum. „Spurðu stjórnendur Kaupþings eða forsvarsmenn þýska bankans.“

Fundurinn í dag var haldinn að beiðni Ólafs eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis leiddi í ljós að aðkoma þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum hefði verið blekking.

Ólafur lagði enginn ný gögn fram á fundinum sem hrekja þá fullyrðingu og ítrekaði  að það hefðu ekki verið sett fram nein skilyrði um aðkomu erlendra fjárfesta. „Mikilvægast var að við buðum hæsta verðið, óháð því hvort við vorum með eða án erlendra aðila. Ólíkt Landsbankanum þar sem farið var í viðræður við þá sem buðu lægsta verðið,“ sagði Ólafur í viðtali við Kastljósi í kvöld.

Ólafur sagði að franski bankinn, sem hefði upphaflega ætlað að vera með í kaupunum, hefði dregið sig út vegna pólitískra afskipta íslenskra stjórnvalda af söluferlinu. „Þeir gerðu sér grein fyrir því að íslensk stjórnvöld höfðu svo mikil áhrif á söluferlið.“

Ólafur ítrekaði að hann viti ekki hverjir eigi félagið Dekhill. Hann fullyrti að hann hefði fyrst séð nafn þessa félags í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og að félagið hefði fyrst verið stofnað 2005. „Ég hef ekki hugmynd um hver á þetta félag [...] spurðu stjórnendur Kaupþings á þessum tíma eða þýska bankans við hvern þeir sömdu því ég hef ekki hugmynd um það.“ 

Lengri útgáfa af viðtalinu við Ólaf verður aðgengilegt á vefnum í kvöld.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV