Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ólafur: Stjórnarskrá má ekki breyta

02.07.2012 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekkert vit er í því að breyta stjórnarskrá landsins í bullandi ágreiningi og sundrungu segir Ólafur Ragnar Grímsson, ný endurkjörinn forseti Íslands. Við þingkosningar í vor viti ekki nokkur maður hver verði stjórnskipuleg staða löggjafasamkomunnar og forsetans.

„Vandinn er auðvitað sá, og hann setti svip á kosningabaráttuna, að vegna þessa ferlis og hvernig það hefur verið, þá var þjóðin sett í þá stöðu sem ég varaði eindregið við í þingsetningarræðu 1. október, að það var gengið til forsetakosninga og það verður gengið til þingkosninga næsta vor án þess að nokkur maður viti hver yrði stjórnskipuleg staða alþingis, eða stjórnskipuleg staða forsetans þegar þessu ferli lýkur," segir Ólafur Ragnar Grímsson, ný endurkjörinn forseti Íslands.

„Sagan sýnir það líka ef frá eru taldar breytingar á kjördæmaskipuninni, þá hefur okkur alltaf tekist að ná sátt um stjórnarskrána. Það hafa allir flokkar sýnt þeirri vinnu þá virðingu að það er verið að setja stjórnarskrá og breyta henni, ekki í þágu einhverrar ríkisstjórnar, eða einstakra ráðherra eða flokka. það er verið að setja stjórnaskrá og breyta henni í þágu þjóðarinnar," segir hann og bætir við:

„Það er ekkert vit í því að fara breyta stjórnarskránni sjálfri, grunnrammanum að öllum átökum í landinu, í bullandi átökum og ágreiningi. Upphaf þessarar vegferðar nú, rætur þessarar vinnu að nýrri stjórnarskrá, lá í kröfunni um sáttmála þjóðarinnar sem hún gæri sameinast um. Stjórnarskrá sem sett er í sundrungu getur aldrei endurspeglað þann sáttmála."