Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ólafur segir af sér formennsku

10.07.2017 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Ólafur Arnarson hefur sagt af sér sem formaður Neytendasamtakanna. Þetta segir hann í tilkynningu sem hann sendi fréttastofu í dag. „Enda þótt ég telji mikið hafa áunnist í sókn Neytendasamtakanna á síðustu mánuðum og að sýnileiki samtakanna hafi aukist verulega verður ekki fram hjá því litið að óvinnandi vegur er fyrir mig að vinna að áframhaldandi framgangi þeirra við núverandi aðstæður innan stjórnarinnar,“ segir hann í tilkynningunni.

Hann segir stjórn Neytendasamtakanna hafa borið sig þungum sökum sem allar séu á skjön við raunveruleikann, ef ekki upplognar. Enginn fótur sé fyrir þeim ásökunum að alvarleg fjárhagsstaða samtakanna sé „að mestu leyti tilkomin vegna óhóflega útgjalda“ sem Ólafur hafi „efnt til án aðkomu stjórnar“.

Samtökin við það að liðast í sundur

Ólafur segir að taprekstur Neytendasamtakanna skýrist af miklum tekjusamdrætti en ekki auknum útgjöldum. „Engum sem til samtakanna þekkir getur heldur dulist að um margra ára skeið hafa þau visnað og veikst með margvíslegum hætti og í raun flotið hægt og bítandi að feigðarósi. Skýrustu einkenni þessarar óheillaþróunar má annars vegar sjá í fækkun félagsmanna og hins vegar í því að þjónustusamningar við stjórnvöld eru aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem áður var,“ segir hann.

Stærsta áherslumál Ólafs þegar hann tók við formennsku hafi verið að nýta tæknina í þágu neytenda með því að koma á fót appi fyrir snjalltæki. Appið Neytandinn hafi því verið kynnt til sögunnar. Þessari nýju tækni hafi meðal annars verið ætlað að renna styrkum stoðum undir nýja og umfangsmeiri þjónustusamninga við ríkið. Hins vegar sé óljóst um framtíð þeirra samninga:

„Þegar stjórn samtakanna hefur nú tekið þá ákvörðun að segja upp öllu starfsfólki þeirra er ljóst að Neytendasamtökin hafa enga burði til að efna skuldbindingar sínar vegna núgildandi samninga og vandséð er að stjórnvöld muni ganga til nýrra samninga við samtök sem því miður virðast vera við það að liðast endanlega í sundur.“