Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ólafur Ragnar nýtur lang mest fylgis

27.04.2016 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, nýtur yfirburðastuðnings forsetaframbjóðenda eða 52,6% þeirra 953 sem svöruðu, samkvæmt könnun MMR. Næstur kemur Andri Snær Magnason með 29,4% fylgi og Halla Tómasdóttir með 8,8%. Saman eru þessir þrír frambjóðendur með tæplega 91% fylgisins. Aðrir frambjóðendur hafa undir 2% fylgi en könnunin var framkvæmd dagana 22.-26.apríl.

Samkvæmt könnunni eru háskólamenntaðir og fólk sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu líklegust til að kjósa Andra Snæ. Ólafur hefur hlutfallslega mest fylgi meðal þeirra sem hafa lægra menntunarstig og búsett eru á landsbyggðinni. Halla Tómasdóttir hefur hlutfallslega meira fylgi hjá konum og æðstu stjórnendum fyrirtækja.

Bæring Ólafsson og Hrannar Pétursson mælast með 1,7% fylgi en þeir hafa báðir dregið framboð sitt til baka frá því að könnunin hófst. Elísabet Jökulsdóttir mælist með 1,4%, Sturla Jónsson 1,3%, Magnús Ingi Magnússon 1,1%, Ástþór Magnússon 0,8%, Guðrún Margrét Pétursdóttir 0,7%, Hildur Þórðardóttir 0,4%, Ari Jósepsson 0,1% og Benedikt Kristján Mewes 0,0%.

Í tilkynningu frá MMR segir að sé miðað við 1000 svarendur geti vikmörk verið allt að +/- 3,1% fylgi. Því sé mögulegt að raunverulegt fylgi frambjóðenda sé 3,1% hærra eða lægra en könnunin segir til um.

Þá segir einnig í tilkynningunni að mikilvægt sé að hafa í huga það tímabil sem gagnaöflunin nær til og túlka niðurstöður í því ljósi.  Ekki miða við þann dag sem niðurstöður eru birtar. Síðdegis mánudaginn 25. apríl voru fluttar fréttir af tengslum fjölskyldu Dorritar Moussaieff, eiginkonu Ólafs Ragnars, við aflandsfélag á Bresku Jómfrúaeyjum. 

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV