Ólafur Ragnar með mest fylgi

01.06.2012 - 18:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ragnar Grímsson er með 56% fylgi í nýrri skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Þóra Arnórsdóttir mælist með 34% fylgi. Aðrir forsetaframbjóðendur eru samanlagt með innan við 10% fylgi.

Hringt var í 2.214 manns í gær og í fyrradag, á miðvikudag og fimmtudag, samkvæmt slembiúrtaki úr þjóðskrá, og náðist í 1.503 kjósendur, sem skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega rétt eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Hvern myndir þú kjósa til embættis forseta Íslands ef gengið yrði til kosninga nú?

Af 1.503 sögðust 9 ætla að kjósa Andreu, eða 0,6%; Ara Trausta 58 eða 3,9%; Ástþór 9 eða 0,6%; þrír sögðust kjósa Hannes eða 0,2%; Herdísi 16 eða 1,1%; Ólaf Ragnar 563 eða 37,5% og Þóru 341 eða 22,7%.

3,8% sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu, óákveðnir sögðust 27,5% og 2,3% neituðu að svara.