Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ólafur Ragnar ætlar að bíða til áramóta

28.07.2015 - 16:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Ragnar Grímsson, sem verður búinn að sitja á forsetastóli í tuttugu ár þegar gengið verður til kosninga eftir tíu mánuði, ætlar ekki að gefa það upp hvort hann býður sig aftur fram fyrr en í nýársávarpi sínu. Ólafur verður búinn að vera forseti í 20 ár þegar forsetakosningarnar verða.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali Sölva Tryggvasonar, fjölmiðlamanns, við Ólaf Ragnar sem birtist á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. 

Ólafur segir í viðtalinu við Sölva að hann hafi verið lengi í embætti en „formleg tilkynning af minni hálfu mun fylgja þeim hefðum sem forverar mínir og þjóðin hafa komið sér saman um,“ segir Ólafur.  Hann hefur notað nýársræðu sína til að greina frá því hvort hann býður sig fram eða ekki.

Ólafur virtist hafa tekið þá ákvörðun fyrir þremur árum að bjóða sig ekki aftur fram. „Það er eðli­legt að við Dor­rit séum far­in að hlakka til frjáls­ari stunda,“ sagði Ólaf­ur í ávarpi sínu.

Á það var þó bent í fréttum næstu dagana á eftir að Ólafur hefði ekki sagt það berum orðum að hann ætlaði að hætta og það kom á daginn.

Í mars sendi hann fjölmiðlum tilkynningu um að hann væri hættur við hætta, vísaði til vaxandi óvissu varðandi stjórnskipun landsins og stöðu forseta í stjórnarskrá. „Í ljósi alls þessa og í kjölfar samráðs okkar hjóna og fjölskyldunnar hef ég ákveðið að verða við þessum óskum og gefa kost á því að gegna áfram embætti forseta Íslands sé það vilji kjósenda í landinu.“

Ólafur segir í viðtalinu á Hringbraut að hann sé alltaf að hitta fólk sem vilji að hann haldi áfram en líka aðra sem telji að þetta sé orðið nokkuð gott hjá honum.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV