Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ólafur og Þóra með mesta fylgið

07.06.2012 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ragnar Grímsson og Þóra Arnórsdóttir hafa langmest fylgi fyrir forsetakosningar samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup. Ari Trausti Guðmundsson mælist með níu prósent en aðrir frambjóðendur mun minna.

Ólafur Ragnar Grímsson mælist með tæplega fjörutíu og sex prósenta fylgi en Þóra Arnórsdóttir með ríflega þrjátíu og níu prósent. Rúmlega níu prósent segjast ætla að kjósa Ara Trausta Guðmundsson en aðrir frambjóðendur fá mun minna fylgi. Herdís Þorgeirsdóttir fær tvö og hálft prósent, Andrea Jóhanna Ólafsdóttir tvö prósent og Hannes Bjarnason eitt prósent.

Ólafur Ragnar nýtur hlutfallslega mest fylgis meðal stuðningsmanna Framsóknar og Sjálfstæðisflokks en Þóra sækir meira fylgi til stuðningsmanna stjórnarflokkanna. Ari Trausti nýtur mest fylgis meðal stuðningsmanna VG en einnig meðal sjálfstæðismanna. Stuðningur við Ólaf Ragnar eykst með auknum aldri og hann er sterkari á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þóra sækir fylgi sitt frekar til yngra fólk og höfuðborgarsvæðisins og nýtur mun meira fylgis hjá þeim sem hafa háskólapróf.

Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem gerð var fyrstu vikuna í júní. Fimmtán hundruð voru valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup og svarhlutfall var sextíu og eitt prósent. Þrettán prósent taka ekki afstöðu, fjögur prósent segjast ekki ætla að kjósa eða skila auðu og eitt prósent segist vilja kjósa einhvern annan en er í framboði til embættis forseta Íslands.