Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ólafur með 54% fylgi

25.05.2012 - 08:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ragnar Grímsson fengi tæplega 54% atkvæða í forsetakosningum yrði kosið nú og Þóra Arnórsdóttir rúmlega 35% samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins sem gerð var í gær og fyrradag.

Ari Trausti Guðmundsson fengi rúmlega 5% atkvæða. 2,7% segjast styðja Andreu J. Ólafsdóttur, 1,3% Herdísi Þorgeirsdóttur og 0,9% Ástþór Magnússon.

 Lítill munur er á afstöðu svarenda eftir kyni. Um 53% kvenna styðja Ólaf og 54% karla og Þóru styðja 37% kvenna og 34% karla. Frekar er hægt að greina mun í könnuninn efitir því hvaða stjórnmálaflokk fólk aðhyllist. Ólafur Ragnar nýtur frekar fylgis framsóknar og sjálfstæðismanna en Þóra stuðningsmanna VG og Samfylkingar.

 Í síðustu könnun Fréttablaðsins sem gerð var fyrir rúmum mánuði naut Ólafur minna fylgis en nú, þá voru þau Ólafur og Þóra nær jöfn hvort um sig naut stuðnings um 46% þeirra sem þá tóku afstöðu.

 Þeim fækkar heldur sem segjast ekki hafa gert upp hug sinn 14% eru óakveðnir samkvæmt þessari könnun en voru um 20% í þeirri sem gerð var í apríl. Könnun Fréttablaðsins var gerð í gegnum síma. Hringt var í 1.326 manns þar til náðist í 800 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki miðvikudaginn 23. maí og fimmtudaginn 24. maí. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Hvern myndir þú kjósa. til embættis forseta Íslands ef gengið yrði til kosninga nú? Alls tóku 79,5 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.

Í könnun Félagsvísindastofnunar sem birtist í síðustu viku hafði Þóra 8 prósentustiga forskot á Ólaf Ragnar, 46% þátttakenda studdu hana en tæp 38% Ólaf.  Framboðsfrestur rennur út í dag. 

Ath. ritstj.: Ranghermt var í upphaflegu fréttinni að ekki kæmi fram hverjar heimturnar væru í könnuninni. Aðferðafræðin var skýrð með leiðréttingu 25. maí 2012.