Okurfréttir hjálpa ferðamönnum að undirbúa sig

15.01.2018 - 08:13
Mynd: RÚV / RÚV
Ferðamálastjóri segir að umfjöllun um Ísland sem dýrt ferðamannaland gefi ferðamönnum færi á að búa sig betur undir verðlagið hér. Þýska blaðið Die Welt sagði frá því fyrir helgi að Ísland væri langdýrasta ferðamannaland í Evrópu samkvæmt tölum hagstofunnar þar í landi – mun dýrara en Noregur sem vermir annað sætið.

Þá var greint frá því um helgina að í Þrastalundi í Grímsnesi hefðu 750 millilítrar af vatni verið seldir á 750 krónur. Eigandinn sagði þetta mistök og að verðið hefði verið lækkað. Skarphéðinn Berg Steinarsson tók við starfi ferðamálastjóra í ársbyrjun. Í Morgunútvarpinu á Rás 2 var hann spurður hvort hann teldi að umfjöllun sem þessi hefði áhrif á ferðamenn sem væru að íhuga ferðalög til Íslands.

„Það hefur sjálfsagt einhver áhrif og kannski allt eins gott að ferðamaðurinn sé upplýstur um að það sé dýrt að koma hingað og geti þá gert sínar ráðstafanir í samræmi við það,“ sagði Skarphéðinn Berg.

„Það er náttúrulega alveg ljóst og er búið að vera ljóst lengi að Ísland er ekkert ódýrt ferðamannaland. Það var það kannski eftir hrun þegar gengi krónunnar var allt annað og miklu veikari,“ sagði ferðamálastjóri. „Þessi gjaldmiðill sem við erum með er dálítið erfiður og sveiflurnar sem hann gengur í gegnum. Það kemur að því að Ísland verður aftur ódýrt ferðamannaland – eða mun ódýrara – þegar krónan veikist. Krónan hefur alltaf gengið í sveiflum,“ sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Skarphéðin Berg í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi