Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ókunnur ökumaður bauð barni sælgæti

10.11.2017 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Ökumaður í Höfðahverfi í Mosfellsbæ stöðvaði bíl sinn síðdegis í gær og gaf sig á tal við átta ára gamalt barn og bauð því sælgæti. Barnið var á leið heim úr skóla. Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu.

Barnið afþakkaði sælgætið og hljóp heim til sín. Málið er til skoðunar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, er ekki á miklu að byggja. Hann hvetur viðkomandi ökumann til að gefa sig fram svo að hægt verði að komast til botns í málinu.

Kristján ítrekar að stundum séu eðlilegar skýringar á athæfi sem þessu. Alvarlegri mál hafi komið upp og því brýnt að börn fari aldrei upp í bíla með ókunnugum. Kristján segir þessi mjög ofarlega á forgangslista lögreglunnar og tekin mjög alvarlega. Einn starfsmaður embættisins hefur það hlutverk að safna öllum slíkum tilkynningum saman.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir