Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ökuferð með Frans fyrsta

Mynd: EPA / ANSA

Ökuferð með Frans fyrsta

12.04.2017 - 15:30

Höfundar

Páskarnir nálgast og þá leggjast margir í ferðalög. Sigurbjörg Þrastardóttir er á útiskónum í sjálfri Róm. Eins og fleiri er hún að teygja hálsinn til að reyna að koma auga á Frans páfa. Hér fyrir ofan má heyra sendinguna frá Róm, en Sigurbjörg skrifar:

 

Góðir hlustendur, það er margt fallegt hægt að segja um pálmasunnudag. Í fyrsta lagi heitir hann þessu undarlega og fína nafni, er bæði kenndur við sólina og pálmann, og í trúarlegu tilliti rifjar hann upp fögnuð – nánar til tekið þegar Jesú Kristur reið á asna inn í Jerúsalem og fólkið heilsaði honum með grænum pálmagreinum. Asni Krists var tákn um látleysi, pálmagreinarnar tákn um lotningu. Það liðu hins vegar ekki margir dagar þar til múgurinn snerist gegn gestinum, en það er önnur saga.

Friðsamur fjöldi

Einhvern tíma var sagt að pálmasunnudagur væri hátíð sem færi meira eða minna framhjá Íslendingum; það er að vissu leyti rétt, við gerum ekki mikið með hann. En í kaþólskum samfélögum er annað uppi á teningnum. Hér í Róm efnir t.d. sjálfur páfinn til messu á Péturstorginu og þúsundir mæta með pálmagreinar og myndavélar. Ég veit það því ég var stödd hérna fyrir sléttum 25 árum. Þá bar 12. apríl upp á pálmasunnudag, ég man það því þá hringdi ég í mömmu mína úr rauðum símaklefa í grennd við Péturskirkjuna og óskaði henni til hamingju með afmælið. Það var í þá daga þegar maður hringdi heim einu sinni í mánuði, max. Sá pálmadagur er þannig á margan hátt eftirminnilegur, þá var Jóhannes Páll II páfi hins kaþólska heims, ég hafði aldrei séð jafn margt fólk samankomið á einum stað og hefði aldrei getað ímyndað mér að slíkur fjöldi gæti verið svona friðsæll.

Og viti menn, fólkið er enn svona margt og fólkið er enn svona friðsælt. Að vísu eru allir sendir í gegnum vopnaleit eins og á flugvelli, áður en gengið er inn á sjálft torgið, töskur settar á færiband og fólki beint gegnum málmleitarhlið, en það er eiginlega það eina sem minnir á hættur heimsins. Inni á torginu er flest við það sama. Jú, það er að vísu búið að skipta pálmagreinunum að mestu út fyrir greinar af ólífutrjám, ólífutréð er tákn friðar og farsældar, og rétt hjá þar sem ég stend er heill köstur af helgum ólífugreinum sem fólk má teygja sig í og sumir vanda sig mjög við valið. Ég veit ekki hvað varð um pálmagreinarnar frá því fyrir aldarfjórðungi en ein kenningin er svona: það er erfiðara að komast yfir þær og svo eru þær alltof stórar og skyggja á útsýni næsta manns fyrir aftan.

Risaviðburður

Gestirnir á torginu við þetta tilefni eru sem fyrr frá öllum heimshornum, brasilískir, lettneskir, zambískir, bandarískir, kóreskir, allt frá almennum túristum af annarri trú til nunnuhópa úr fjarlægum klaustrum. Sumir hafa komið snemma og tryggt sér pláss í fremstu hólfunum, en það er líka í lagi að vera á röltinu aftan til – öllu er útvarpað skilmerkilega í gríðarlegu hátalarakerfi og nærmyndum af hans heilagleika og samverkamönnum er varpað á tvo risaskjái. Sólin skín, himinninn er blár, hvelfing heilags Péturs er skjannahvít. Að vísu heyrist ekki vel hvað páfi segir, þaðan sem ég stend, því hávaðinn í gosbrunninum er svo mikill, en það verður að hafa það. Tónlistin er aftur merkilega skýr, kórsöngur, fiðla, messusvör, sálmar, allt sem prýða má eina stóra kaþólska messu í aðdraganda páska. Og allt verður einhvern veginn og smám saman mikilfenglegt, byggingarnar, söngurinn og samtakamáttur hinna friðsælu gesta, maður gleymir því sem snöggvast að á sölubásum í kring er hægt að kaupa sleikibrjóstsykur í formi páfans, dagatöl með myndum af heitustu kaþólsku ungprestunum og glerkúlur af Péturskirkjunni með innbyggðum snjókornum.

Trúin triggerar túrisma sem að vissu leyti er orðinn Disney-væddur, það er svo að segja enginn sem kemur á Péturstorgið í Róm til þess að hlýða á orð Drottins án þess að kaupa eitthvað til minja, taka mynd eða myndir, eða í það minnsta borga fyrir blessun hjá betlikonunum fyrir utan. Allt í lagi, kannski fyrirfinnast einhverjir hreinræktaðir pílagrímar, en langflestir þurfa áþreifanlega sönnun þess að þeir hafi verið hér og nú. Og þá kemur nú sjálfan að góðu gagni, margir laumast til að stilla sér upp fyrir framan eigin myndavél og smella af, orðið á götunni er að Frans páfi fyrsti sjálfur sé stundum fáanlegur til þess að vera með á selfí, ef maður hittir hann í návígi, og já, alveg rétt, hvar er hann núna – hann er horfinn af efstu tröppunni þar sem hann stóð rauðklæddur rétt áðan og predikaði. Hvar er eiginlega páfinn?

The popemobile

Jú, það er auðvelt að finna hann með því að horfa yfir áhorfendaskarann, fremst til vinstri er klappað og hrópað. Messunni er lokið og páfinn gengur í átt til fólksins, kannski ætlar hann að heilsa nokkrum fremst. Eða nei, hann stígur upp á lítinn pall sem byrjar allt í einu að hreyfast, það er ekki um að villast, hann er kominn upp á páfabílinn, the popemobile, og siglir af stað á hraða sem kemur manni í opna skjöldu. „Alveg eins og Spice Girls á lokahátíð Ólympíuleikanna,“ verður mér á að segja við samferðarmennina, „þær stóðu ofan á svörtum leigubílum og gátu haldið sér í svona stöng ef farið var of hratt, þetta er furðulega líkt …“ Og þarna þeysir páfinn veifandi gegnum mannfjöldann, eftir stígum sem haldið hefur verið opnum, og hendur og myndavélar hefjast á loft eins og bylgja á knattspyrnuvelli í þá átt sem hann ekur. Það munar engu að hann gefi aðdáendum sínum spaðafimmu, hæfæv, Frans páfi á fullri ferð, hann hefur kastað af sér rauðu hempunni, búningaskipti eins og í Eurovision segir finnska konan við hliðina á mér, og nú magnast kórsöngurinn og kirkjuklukkurnar eru farnar að hringja, það er gæsahúð í öllum litum á Péturstorginu í Róm, rokkstjarnan Frans fyrsti svífur um á því sem næst ólöglegum hraða innanbæjar, fyrir aftan hann á pallinum stendur kvikmyndatökumaður í jakkafötum, öllu er varpað beint upp á risaskjáina – ég tek ekki til baka það sem ég sagði áðan með friðinn en hann hefur breyst í einhvers konar geðshræringu. Fólkið hefur prílað upp á ólífugreinahrúguna sem áðan var rammheilög, það þarf að sjá betur til, það vill ná mynd af hönd guðs, af hvítu eldingunni sem af lýsir og það er ekki síðri trúarupplifun en hver önnur. 

Ár eftir ár

Sálmarnir hljóma áfram í hátalarakerfinu, þetta er dagurinn sem fólkið fagnar gesti á asna, við bliknum ekki þótt asninn breytist sem snöggvast í popemobile, svo lengi sem múgurinn lætur ekki hleypa í sig illu blóði – það er fyrir öllu – pálmasunnudagur er ennþá bjartur, kannski ögn beiskur í ljósi þess sem koma skal, en samt opinn til túlkunar; það er vel þess virði að gefa honum meiri gaum, lesa í táknin og strjúka pálmagrein, þótt það sé ólífugrein, já, jafnvel bara birkigrein, því það er hefð fyrir því að hver vefji að hjarta sínu því sem hendi er næst, hugsi sitt og hengi svo yfir dyr sínar þar til nýr pálmadagur heilsar að ári.