Okkar ameríska kleinuhringjaveröld

Mynd: Jónatan Grétarsson / Íslenski dansflokkurinn

Okkar ameríska kleinuhringjaveröld

31.03.2017 - 15:50

Höfundar

María Kristjánsdóttir fjallaði um hina metnaðarfullu sýningu Fórn sem „ögrar ofgnótt í myndum, dansi og texta um að allt sé til sölu.“

María Kristjánsdóttir skrifar:

„Fórn“, hátíð nýrra helgisiða,  hefst með markaði í anddyrinu á Borgarleikhúsinu einsog á Njálu. En nú undir fagurlituðum silkitjöldum Signe Bekker sem lyfta fordyrinu og minna á miðaldir, minna á sirkustjald. Þegar áhorfendur streyma inn í upphafi og fylla þar hvern krók og kima, einnig  í hléum, sem eru tvö, er markaðurinn hvorki áberandi né ágengur. Jú, fáklæddur karlmaður í dragi vekur athygli fyrir söng.  Málverk á borði eru til sölu.  Á borðum líka bækur, skartgripir ‒og poppkorn er selt. Á litla sviðinu, er sagt, að hægt sé að stunda hatursjóga en þar kemst ég ekki inn og tilraun til að sjá videómynd á vegg endar í örvæntingarfullum flótta undan þungri  málmplötu sem Erna Ómarsdóttur dregur á eftir sér með skellum um forsalinn þveran og endilangan. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jónatan Grétarsson - Borgarleikhúsið

Áhorfendur  skyggja á söluborðin, skyggja á unglingaherbergið og öskurklefann . Þeir  leita hver til annars eða inná Nýja sviðið þar sem vídéomynd Gabríelu Friðriksdóttur „Dies Irae“ eða „Dagur reiði“ gengur látlaus.  Greftrun og sálumessa er viðfangsefni þessarar fimmtán mínútna svart hvítu myndar. Hún flýtur, umbreytist,  rennur  yfir háreist verksmiðjuhof, fjöll , dali og vatn. Þar er erfitt yfirferðar fyrir manneskjurnar, dansarana . Þeir paufast áfram íklæddir, svörtum fuglshömum sem sennilega er svart hár, eða hálfnaktir einungis í skýlum úr svörtum gúmmíslöngum. Hvítmálaðir eins og frumbyggjar Ástralíu, klífa þeir fjöll, leggjast til hinstu hvíldar, hverfa í snjó,  hverfa í jörðu, sökkva í svarta olíu og rísa aftur upp, skríða upp og halda áfram göngu sinni. 

Gabriela leikur sér með myndformið í úrvinnslunni, athyglin dregin líka að því smáa: einu auga, trjábút, dropa af vatni. Þetta er hrífandi leikur, fullur glettni og drunga og jafnvel aðvörun til okkar sem álítum að við séum miðja heimsins. „Dagur reiði, dagur bræði/ drekkir jörð með logaflæði/votta heilög völufræði“ segir í fyrsta erindi sálnamessu Tómasar frá Celano sem bræður af reglu vorrar Heilögu Frúar syngja undir myndflæðinu en að vísu gengur söngurinn  afturábak.

Dauðinn og slöngurnar

Stef, leikmunir, leiklausnir úr mynd Gabrielu ganga hins vegar ekki aftur á bak heldur aftur í báðum verkum Íslenska dansflokksins,  sem Erna Ómarsdóttir og Valdemar Jóhannsson stjórna.  Þar er dauðinn, þar eru slöngur, hár, búningar og líkamar málaðir. „Helgiathöfnin“ eða „Shrine“ heitir  fyrri dans þeirra á Stóra sviðinu. Eftir að áhorfendur hafa verið beðnir í mjög löngu máli velkomnir stendur myndlistarmaðurinn Sigtrygg Berg Sigmarsson einn eftir á hliðarsviði og fer að engjast og gefa frá sér hljóð, hljóðin breytast í orð , öskur: „jíbbíjei“, „jíbbíjei“. Örmagna af kippum og öskrum staulast hann loks, hverfur inn í myrkt stóra sviðið, sem hefur opnast og þar aftast stór gegnsær kúpull undir honum söngkonan,  gyðjan  Sofia Jernberg, íklædd búningi afgreiðslustúlku Dunkin Donuts kleinuhringjaframleiðslunnar  og upphefur fagran söng. Sviðsgólfið myrkt, skorið aftanfrá af leisergeisla. En á gólfinu mannslíkamar sem fara að hreyfast varkárir, ómarkvisst  hver með sér. Í því sem eftir fylgir og kallað er  „tilraunin til að endurheimta liðinn tíma og horfinn heim“ má greina : Sirkusleik  og tilbeiðslu. Fornar gyðjur sem verða til úr líkömum kvenna. Þær breytast í nokkurs konar Medúsu úr svörtum slöngum , ‒og þar er ég minnt á „Hlátur Medúsu“ eftir Helene Cixsous og þá herhvöt hennar að nota líkamann sem uppsprettu valds og innblásturs‒  því Medúsa sviðsins umbreytist nefnilega í villtar  meyjar í árásargjarnri  stynjandi trúarvímu sveiflandi hári og og aftur hári sem við sáum reyndar fyrst hjá Ernu  í Bakkynjum, og síðast í Njálu. Endurtekningin er stór þáttur í þessari helgiathöfn.  

Mynd með færslu
 Mynd: Jónatan Grétarsson - Borgarleikhúsið

Áhorfendur að nútíma dansi eru vanir að glíma við óhlutbundna fagurfræði, en þeir þurfa helst að ná sambandi við athafnirnar á sviðinu, skynja eitthvað sem kallast á við veruleika, reynslu þeirra. Að vera vitni að síendurtekinni, endalausri trúarvímu annarra, með síendurteknum sömu hreyfingum, verður að lokum einfaldlega pirrandi, óþægilegt, einsog lægi maður á gægjum. Það orkaði ef til vill öðruvísi væri áhorfanda  ögrað til að taka þátt.  Fagurfræðileg fullnægja áhorfanda kviknar þó í lokin við mynd sem Björn Bergsteinn býr til með leisernum, þar verður loks til eitthvað nýtt í hári! Hinn myndlistarmaðurinn Sigtryggur ,nú ósýnilegur, rammar svo allt saman inn með því sprengja konfetti yfir sviðið og æpa „jíbbíjei“.

Gítarar og gæsir

Ballettsýningin „Ekkert á morgun“ fyrir átta dansara og átta gítara eftir Ragnar Kjartansson og Margréti Bjarnadóttur  við tónlist Bryce Dessner er einnig sýnd á stóra sviðinu. Þar er rýmið bert og mikil birta yfir  „þokukenndri tíð manndómsvígslunnar“.  Tónlistin hrein, leitandi úr órafmögnuðum gítururm dansarana. Þeir hreyfast um rýmið eftir hljómfallinu sem þeir sjálfir skapa líkt og væru þeir að dansa kafla úr Svanavatninu á táskóm. Unglingurinn á gallabuxum og skyrtu er þarna með gítarinn sinn og  yfir honum öllum einhver ára alls upphafs, einhvers sem ekki er fullkomið, hins óskrifaða blaðs og það kveikir gleði og húmor í brjósti áhorfandans.

Mynd með færslu
 Mynd: Jónatan Grétarsson - Borgarleikhúsið

Fjórða og síðasta sýningin er á kvikmynd: „Sameiningunni“ eða „Union of the North“ eftir handriti Matthews Barneys en í leikstjórn Ernu Ómarsdóttur og Valdemars Jóhannssonar. Barney vildi ekki skrifa fyrir leiksvið, svo fengið var inni fyrir upptökur í hofinu okkar  Kringlunni eftir lokun. Það hof  reynist ramma  inn allar sýningarnar. Því þar stendur nefnilega við afgreiðsluborðið á Dunkins og Donuts söngkonan úr „Helgidómi“ gyðjan Nammu, „Hið endalausa haf“ sem ól af sér himinn og jörð og útbýr gylltan kleinuhring fyrir brúði og brúðguma. Þau er verið er að gæsa og steggja í  öðrum verslunarrýmum,  mála og klæða svo Nammu geti gefið þau saman. Það er margt óhemju fyndið og sorglegt sem gerist í eyðilegri Kringlunni. Ýmsir eru þar á ferli, einmana afgreiðslufólk, sjálf Wikipedia í líki Friðgeirs Einarssonar, en gæsunin og steggjunin í miðpunkti.

En eins og í fyrra verki Ernu og Valdemars tekur þetta allt óhemju langan tíma. Og þó margt rími þar við veruleika áhorfandans og gæti vakið til skilnings og umhugsunar er hann á endanum svo lúinn að hann bíður þess eins að þessu ljúki. Gárungi úr leikhúsheiminum lýsti því yfir á eftir að honum hefði verið hugsað til Gísla Halldórssonar leikara  sem sagði þegar hann kom útaf langri sýningu á Merði Valgarðssyni: „Mér finnst að ég hafi setið hérna frá því á landnámsöld.“

Mikil hátíð

Tugir ef ekki hundruð manna hafa lagt hönd á plóg til að gera þessa hátíð að veruleika og margt er þar óhemju vel gert og allt augljóslega af miklum metnaði. Vera kann vissulega að verið sé að ögra áhorfandanum með seinaganginum og allri þessari ofgnótt í myndum, dansi og texta  um að allt sé til sölu: Hann  þurfi að leggja eitthvað á sig fyrir listina!  En ég held að þar fari menn villu vegar. Betra hefði verið að sýningarnar hefðu staðið yfir í tvö kvöld eða hægt hefði verið að sækja þær á mismunandi tímum. Og það gengur heldur ekki, því miður, að sumar sýninganna snúist fyrst og fremst um að þeir sem sýna séu þar að fá endalausa óbeislaða útrás fyrir frumhvatirnar, vellíðan þeirra skipti meginmáli.

Ég „kaupi“ það að minnsta kosti ekki!