Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ókeypis tölvuleikur sem malar gull

Mynd: EPIC Games / EPIC Games

Ókeypis tölvuleikur sem malar gull

07.06.2018 - 13:45

Höfundar

Fortnite: Battle Royale hefur á undanförnum mánuðum orðið einn allra vinsælasti tölvuleikur heims. Leikurinn kom út í lok síðasta árs og er nú með meira en 45 milljón spilara víðsvegar um hnöttinn. Þrátt fyrir að vera bannaður innan 12 ára hefur Fortnite umfram allt slegið í gegn hjá börnum og ungmennum, og ólíkt því sem oft er staðreyndin með tölvuleiki, ekki síður hjá stelpum en strákum.

Það er kannski ekkert byltingarkennt við tölvuleikinn í sjálfu sér, þetta er fjölspilunar þriðju-persónu-skotleikur. 100 leikmönnum er kastað út úr flugvél yfir lítilli eyju, þar hlaupa þeir um, finna ýmis konar skotvopn og tól, og berjast svo til síðasta blóðdrepa. Ýmist í liðum eða allir á móti öllum. Þeir geta falið sig eða leitað mótherjana uppi og slátrað þeim, leitað að vopnum og byggt sér virki. Þegar spilararnir tapa tölunni einn af öðrum minnkar eyjan og að lokum stendur einn eftir sem sigurvegari.

„Það má segja að aðrir leikir hafi lagt grunninn að vinsældum Fortnite, þeir sáu sér ákveðið tækifæri í þessari tegund tölvuleikja þar sem allir eru á móti öllum og einn stendur uppi sem sigurvegari – svolítið eins í Hunger Games kvikmyndunum,“ segir Bjarki Þór Jónsson, sem kennir tölvuleikjahönnun við Fjölbrautaskólann í Ármúla og ritstýrir tölvuleikjavefritinu Nörd norðursins.

Fortnite: Battle Royale er nokkuð skýr eftiröpun fyrirtækisins Epic Games á öðrum vinsælum fjölspilunar-skotleik fyrir PC tölvur, Player Unknown Battleground, sem er yfirleitt kallaður PUBG. „Hann er miklu alvarlegri, þyngri, grárri og blóðugri. En Fortnite er miklu léttari, teiknimyndalegri. Hann er ekki bannaður nema innan tólf ára.“

Gáski og skærir litir

Útlit Fortnite er bjart, fullt af skærum litum og nánast teiknimyndalegum persónum. Það er líka gáskafullur húmorinn sem dregur fólk að. Það er hægt að nálgast alls konar aukahluti sem virka kjánalegir í samhengi skotbardaga, svo sem geimgalla eða risaeðluföt. Annað dæmi um þessa leikgleði sem einkennir Fortnite eru danssporin sem persónur stíga þegar þeim tekst ætlunarverk sitt, að eyða öðrum leikmönnum úr leiknum. Danssporin eru fengin víðsvegar úr poppmenningunni og af internetinu og hafa mörg sporin öðlast  vinsældir hjá yngstu spilurum leiksins

„Þetta er virkilega skemmtilegur leikur, ef maður er fyrir svona skotleiki,“ segir Bjarki. „Það er líka mjög einfalt að læra á hann svo það er talað um að þessi leikur hafi náð að draga til sín nýja tegund af tölvuleikjaspilurum.” Leikurinn er ókeypis, sem Bjarki telur vega þungt í vinsældum hans. „Þú getur sótt leikinn á PC-tölvuna, leikjatölvuna, nýlega á Apple-græjuna og bráðum Android. Þú getur sótt hann, byrjað að spila og ekki borgað krónu.”

Græðir meira en risakvikmyndir

Þrátt fyrir að vera ókeypis veltir leikurinn ævintýralegum upphæðum um þessar mundir, meiri peningum en stærstu Hollywood-kvikmyndir.

„Þetta er út af fatnaði og útliti á karakterum. Fólk er alveg til í að eyða stórum fjárhæðum í þetta. Það hafa komið fréttir um að foreldrar á Íslandi hafi verið að hafa samband við Senu, sem sér um Playstation á Íslandi vegna þess að krakkar hafi verið að eyða miklum fjárhæðum í búninga og karaktarana sína,” segir Bjarki.

„En það sem þú kaupir er bara útlitstengt og hefur engin áhrif á kraftinn í byssunum þínum eða hversu sterkur karakterinn er. Leikurinn helst því mjög sanngjarn og fólk vill því spila áfram,” segir Bjarki og telur hann ólíklegt að vinsældir Fortnite muni minnka á næstunni.

Tengdar fréttir

Græða milljónir á því að spila tölvuleiki