Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ókeypis menntun fyrir alla og alls staðar

16.11.2017 - 16:38
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Samstarfs Háskóla Íslands um þátttöku í alþjóðlegu neti háskóla um rekstur opinna netnámskeiða verður undirritað á morgun. Bandarísku háskólarnir Harward og MIT hrundu netnáskeiðahaldinu af stað 2012. Nú fimm árum síðar ná námskeiðin til 700 háskóla og 58 milljónir nemenda hafa skráð sig á eitt eða fleiri námskeið sem eru um 7000 talsins. Námskeiðin taka fyrir efni af öllum toga og er aðgengileg öllum ókeypis.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands fagnar því að skólanum hafi verið boðið að taka þátt í þessu neti. Það sé alls ekki sjálfgefið

„Þetta er er stærsta háskólasamstarf sem um er að ræða varðandi netnámskeið. Það að háskólinn fari þarna inn býður upp á mikil tækifæri. Þau eru í boði án gróða og fólk þarf ekki að greiða fyrir námskeiðin. Þarna eru fremstu aðilar í heimi að þróa svona námskeið sem eru í boði fyri eiginlega hvern sem er. Þarna er í raun verið að færa menntunina til fjöldans og nýta tæknina til þess,“ segir Jón Atli.

Fyrsta verkefni Háskólans verður að búa til námskeið um miðaldasögu íslands. Gert er ráð fyrir að þau verði aðgengileg á netinu í mars á næsta ári. Hjalti  Snær Ægisson bókmenntafræðingur verður aðalkennari námskeiðsins. Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar við Háskólans, segir að námskeiðin verði ekki aðeins kona eða karl að tala í mynd.

„ Þarna er verið að reyna að blanda margs konar tækni. Það eru teknir upp fyrirlestrar, unnið saman í hópum og skilað verkefnum í gegnum netið. Námskeiðin eiga það sammerkt er að öll kennslan fer fram á netinu,“ segir Steinunn.

Nánar er rætt við Jón Atla og Steinunni í Speglinum.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV