Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ójöfnuður hefur aukist frá árinu 2013

01.12.2017 - 08:33
Mynd: RÚV / RÚV
Ójöfnuður hefur aukist hér á landi síðan árið 2013. Helsta ástæðan er sú að fjármagnstekjur hafa aukist en verulega dró úr þeim eftir bankahrunið árið 2008. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar og fram til ársins 1995 ríkti mikill jöfnuður hér á landi og sennilega sá mesti í heimi. Þetta segir Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands.

„Þetta fór svo að breytast frá 1995 og fram að hruni þá jókst ójöfnuður mjög mikið. Hæstu tekjurnar fóru langt fram úr öllum öðrum. Síðan við hrunið þá jafnast þetta aftur en ekki alveg. Tekjuskiptingin varð jafnari frá 2010 til 2013. Síðan þá hefur ójöfnuður farið að aukast á ný, en hægt,“ segir Stefán. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Stefán og Arnaldur Sölvi Kristjánsson hafa rannsakað ójöfnuð hér á landi. Lesa má um afraksturinn í bókinni Ójöfnuður á Íslandi sem kemur út í dag.

Síðustu þrjú ár hafa hæstu tekjurnar aukist hraðar. Stefán segir ástæðuna helst þá að fjármagnstekjur séu að aukast á ný. Verulega dró úr þeim á fyrstu árunum eftir bankahrun. „Bóluhagkerfið bjó til miklar tekjur fyrir ríkasta fólkið,“ segir hann.

Stefán og Arnaldur rannsökuðu ójöfnuð hér á landi yfir langan tíma. Stefán segir að á millistríðsárunum hafi verið mikill ójöfnuður, líkt og í öðrum ríkjum í Vestur-Evrópu. „Síðan tekur við mikil jöfnun eftir síðari heimsstyrjöldina. Eftir að Ísland fékk sjálfstæði ríkti hér sennilega mesta jafnaðarsamfélag jarðarinnar í 50 ár ásamt hinum Norðurlöndunum. Sennilega var ívið meiri jöfnuður á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.“ 

Helstu ástæður þess að ójöfnuður jókst frá 1995 eru, að sögn Stefáns, þær að hlutabréfamarkaður kom til sögunnar og aukið frelsi til fjármagnsflutninga á milli landa og til lántöku í öðrum löndum. „Þetta var einstakt því að hvergi urðu fjármagnstekjur hátekjuhópa eins miklar og á Íslandi fyrir hrun.“ Stefán bendir á að það eitt prósent Íslendinga sem var með hæstar tekjur árið 2007 hafi verið með næstu hæstu tekjur í Evrópu á þeim tíma. Hæstar voru tekjur þeirra efnamestu í Lúxemborg.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir