Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Óheyrilega langur tími“

17.02.2017 - 08:11
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Óheyrilega langur tími leið frá því regnbogasilungur fór að veiðast í ám þar til Arctic Sea Farms viðurkenndi að þannig fiskur hefði sloppið í miklum mæli út um gat á sjókví. Þetta segir formaður Landssambands veiðifélaga. Það hefur kært sleppingu regnbogasilungs til lögreglu.

Umtalsvert af regnbogasilungi virðist hafa sloppið úr kvíum eldisfyrirtækisins Arctic Sea Farm í Dýrafirði. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir komið hafi í ljós gat við botn kvíar. Þetta geti verið meginskýringin á slysasleppingu regnbogasilungs, sem greint var frá í fjölmiðlum síðastliðið haust. Landssamband veiðifélaga kærði í janúar sleppingar á regnbogasilungi og fór fram á opinbera rannsókn á því hvort um refsivert athæfi væri að ræða.

„Það kom okkur ekki mikið á óvart að það hefði fundist gat á kví því við fengum fyrst upplýsingar um að það væri að veiðast regnbogasilungur 13. júní síðasta sumar. Það eru liðnir 8 mánuðir frá því fyrst fóru að sleppa fiskar þannig að þetta er óheyrilega langur tímur sem líður milli þess sem fiskar fara að sleppa og einhver viðurkennir að eitthvað sé að. Það er eðlilegt að lögregla rannsaki slík mál,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga.

Í kærunni segir að regnbogasilungur hafi veiðst víða í ám um norðanvert og vestanvert landið. Þá hafi silungurinn veiðst í ám við Húnaflóa og Faxaflóa. Þá kemur fram að Matvælastofnun rannsaki málið.

Áform um að ala norskan lax valda áhyggjum
Jón Helgi óttast að aftur sleppi silungur og að það geti haft áhrif á íslenska laxa- og silungsstofna. Það sé hörmulegt að gat hafi komið í kvínna hjá Arctic Sea Farm. „En þetta er í raunni bara það sem við eigum von á á næstu árum,“ segir Jón. Það sé áhyggjuefni að fiseldisfyrirtæki ætli að margfalda framleiðslu sína og svo séu áform um að skipta regnbogasilungi út fyrir norskan frjóan lax. „Það verður miklu hættulegra ef hann fer að sleppa. Hann getur blandast íslensku laxastofnunum og getur haft varanleg og alvarlegri áhrif á þá,“ segir Jón Helgi.