Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óhefðbundið húsnæði: „Þú átt ekkert heima þar“

Mynd:  / 

Óhefðbundið húsnæði: „Þú átt ekkert heima þar“

02.02.2019 - 07:38

Höfundar

Einar Tönsberg tónlistarmaður byggði sér sumarbústað í landi Háls í Kjós. Hann hefur búið í bústaðnum í átta ár og er enn að byggja við. Hann vildi vera nær náttúrunni og sleppa við að steypa sér í skuldir. Það tókst. Sveinn Guðmundsson, formaður Landssambands sumarhúsaeigenda, berst fyrir því að fólki verði gert kleift að skrá lögheimili sitt í frístundahúsabyggðum, það séu einfaldlega mannréttindi. Sambandið leggur upp með að lögheimili í sumarbústað fylgi takmörkuð réttindi. 

Á Íslandi eru stórir hópar fólks fastir; á leigumarkaði, í foreldrahúsum eða í óleyfishúsnæði. Flestir vilja kaupa sér íbúð en það er ekki á allra færi. Margir eru eflaust orðnir leiðir á að verja stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í húsaleigu. Suma óar við að skuldsetja sig og greiða af láni áratugum saman. Er eitthvað annað í boði? Spegillinn heldur áfram umfjöllun sinni um fólk sem valið hefur óhefðbundnar leiðir til að koma þaki yfir höfuðið; af hugsjón, til að búa ódýrt eða hvoru tveggja. Fyrr í vikunni var fjallað um fólk sem býr í skútu við Hafnarfjarðarhöfn, konu sem er hæstánægð í 13 fermetra heilsárshúsi á hjólum og fjölskyldu sem reisti lítið hús í bakgarðinum fyrir elsta soninn

Dreymdi um eigin skika eftir búsetu erlendis

Hvað varð til þess að Einar keypti lóð og byggði sumarbústað? „Ég fór í nám til London og ílengdist þar í vinnu, var þar í tíu ár og flutti heim 2006. Þá var nú svolítið sérstakt ástand. Ég sá mér bara ekki fært annað. Ég var líka búinn að vera að hugsa um þetta, alltaf þegar ég kom til Íslands langaði mig út fyrir Reykjavík, ég var farinn að sjá fegurðina í fjöllunum og landinu og langaði í einhvern skika. Svo var ég bara að keyra þarna fyrir slysni og sá lóðir til sölu, fór í kaffi til bóndans og eftir það var eiginlega ekki aftur snúið.“ 

Timburgámur og vægt taugaáfall

Mynd með færslu
 Mynd:
Gámurinn kom frá Austur-Evrópu. Það tók Einar þrjá daga að tæma hann.

Einar gerði grunninn að húsinu 2007 og fékk teikningar að einföldu húsi hjá Teiknistofunni Örk. „Ég pantaði timbrið líka í gegnum þá, fékk gám frá Austur-Evrópu. Þá fékk ég svona smá taugaáfall vegna þess að þá var ég kominn með 40 fermetra gám af timbri, ég held ég hafi verið þrjá daga að ganga með það út úr honum. Þarna bara byrjaði ballið.“ 

Kominn með byggingabakteríu

Húsið var 46 fermetrar, þegar það var klárt vildi Einar stækka við sig, byggingabakterían búin að hreiðra um sig. Hann er í raun búinn að vera að smíða í 13 ár, húsið er orðið 100 fermetrar og nú er hann að bæta við gestahúsi. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrst hús, svo stærra hús, svo gestahús.

Hann er ekki iðnaðarmaður. Er ekki áhættusamt að ráðast í svona framkvæmdir? Óttaðist hann ekki að gera einhver dýr mistök? „Nei, það er búið að byggja hús svo oft að það er eiginlega voðalega erfitt að klúðra því. Þú þarft náttúrulega að fá fagmenn til að hjálpa þér, þú ert ekki að fara að vinna í rafmagni eða pípa sjálfur. Þú þarft líka að vera með byggingastjóra og hann kom og leiðbeindi mér, ég gat alltaf hringt í hann þegar ég var stopp. Annars fékk ég svo nákvæmar teikningar að þetta er eiginlega bara handavinna, ef þú hefur tímann í þetta er þetta ekkert mál.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Einar er langt því frá sá eini sem kýs að búa í bústað. Formaður Landssambands sumarhúsaeigenda segir marga hafa hug á að flytja í frístundahús.

Barnafmæli í húslausum kjöllurum

Einar minnist þess þegar hann var krakki, þá hafi fólk alltaf verið að byggja en í dag sé annað uppi á teningnum. „Maður fór í afmæli og fólk var rétt búið að koma sér fyrir í kjallaranum, búið að steypa hann. Það voru engar hurðir, bara eldunaraðstaða og klósett, þarna bjó fólk þangað til það hafði efni á því að reisa húsið. Mér fannst þetta alltaf einhvern veginn heillandi.“

Fann ekki beint fyrir kostnaðinum

Hann hafði engan áhuga á því að steypa sér í skuldir. „Ég á þetta skuldlaust. Ég var bara að eyða fimmtíu þúsund kalli á mánuði í eitthvað efni. Það þurfti ekkert að gerast hratt, flísar einn mánuðinn, gólfefni annan. Þetta bara tikkaði.“

Einar hefur alltaf unnið sem sjálfstæður atvinnurekandi og sinnti ýmsum tónlistartengdum verkefnum á meðan hann byggði húsið. „Það voru skorpur þannig að ég hafði alltaf einhvern tíma til að sinna þessu. Eftir að ég flutti þarna inn og byrjaði að stækka var þetta lítið mál, einn-tveir tímar á kvöldi eru mjög fljótir að skila sér.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Einar hefur verið að byggja í 13 ár og segist varla hafa fundið fyrir kostnaðinum við húsið.

Kostnaðurinn við húsið er á huldu. „Ég tók þriggja milljóna króna lán upphaflega fyrir timbri, síðan hef ég ekki tekið lán, ég er að klára það. Ég hef ekki tekið saman hvað þetta kostaði allt, ég bara fann ekki beint fyrir þessu, sennilega svona tíu, fimmtán milljónir.“

Að byggja sumarbústað er kannski ekki laust við áhættu. Einar segir að það geti verið erfiðara að selja þá þar sem ekki sé hægt að fá hefðbundið húsnæðislán fyrir þeim. 

Fjörutíu mínútna akstur í skólann

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Neðanjarðarlestin í Lundúnum.

Dætur Einars eru hjá honum aðra hverja viku, þær sækja skóla í Reykjavík. „Þetta er um fjörutíu mínútna akstur og eftir að hafa búið í London í tíu ár er það ekki neitt mál, þar tekur allt allavega fjörutíu mínútur.“ 

Bóndinn sér um snjómokstur í hverfinu, ófær heimreið hefur því ekki truflað Einar. „Þetta er lúxus, það er frekar að maður lendi í vandræðum þegar maður kemur í Mosó, ef veðrið er vont.“

Fjölgar í hverfinu og setið um lóðir

Einar er ekki sá eini sem býr í hverfinu allt árið. Hann segir að á síðustu þremur eða fjórum árum hafi íbúum fjölgað mikið, það sé setið um allar lóðir og fólk vilji byggja hús til að búa í.

Mynd með færslu
 Mynd:
Það er bannað að skrá lögheimili sitt í sumarbústað.

„Ég fór upp í Þjóðskrá og sagðist eiga heima á Berjabraut“

Árið 2005 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að synjun sveitarfélags, á beiðni manns um að skrá lögheimili sitt í sumarbústað, teldist frávik frá stjórnarskrárvörðum rétti einstaklings til að ráða búsetu sinni. Eftir dóminn fékk fólk um tíma að skrá lögheimili í frístundabyggðum. Lögheimilislögum var breytt árið 2006 og girt fyrir að fólk gæti skráð lögheimili í sumarbústað, rökin voru þau að ótakmarkaður réttur til lögheimilisskráningar væri til þess fallinn að raska áætlunum og fjárhag sveitarfélaga. Samband sveitarfélaga segir þó að fáir hafi nýtt sér þessa heimild á meðan hún var í gildi. Þeir sem skráðu lögheimili sitt í sumarhúsi fyrir 1. janúar 2007 fengu að halda skráningunni en í dag er óheimilt að skrá lögheimili sitt í frístundabyggð. Í svari Þjóðskrár við fyrirspurn Spegilsins segir að búi einstaklingar í húsnæði sem ekki er heimilt að skrá lögheimili í sé heimilt að skrá þá til lögheimilis í sveitarfélagi án tilgreinds heimilisfangs. Þá er miðað við það sveitarfélag þar sem viðkomandi hefur haft þriggja mánaða samfellda dvöl. 

„Ég man að ég fór upp í Þjóðskrá og sagðist eiga heima á Berjabraut í Kjós, mér var bara sagt að ég ætti ekkert heima þar. Ég spurði bara konuna, viltu að ég ljúgi og setji bara einhverja staðsetningu. Hún sagði, já geturðu gert það. Lengi var ég skráður í foreldrahús en ég er nú skráður heima núna. Þetta er lítið og fallegt samfélag og maður er farinn að vera aðeins með.“ 

Efri skalinn áhugasamur

Sveinn Guðmundsson, lögmaður og formaður Landssambands sumarhúsaeigenda, segir að margt fólk hafi áhuga á að flytjast búferlum í frístundahúsið, einkum eldra fólk. „Þetta hefur aukist töluvert. Við höfum orðið mikið vör við það hjá Landssambandinu hvað það er mikið sótt til okkar, fólk spyr hvaða stöðu það geti haft og hvort það megi og svo framvegis. Þetta er oft fólk sem er komið svona á efri skalann.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Sveinn segir að sumir vilji komast í sveitina, aðrir eigi ekki annars kost en að flytja í frístundabyggð.

Ekki liggur fyrir hversu margir búa í sumarbústöðum, Spegillinn spurði Svein hvort hann teldi að þeir skiptu þúsundum, hann svaraði því neitandi. Þá finnst honum ólíklegt að mjög stórir hópar fólks flytji í bústaðinn, verði það heimilað á ný. Spegillinn hefur sent Þjóðskrá fyrirspurn. 

„Stjórnarskrárvarinn réttur“

Mynd með færslu
 Mynd:
Sveinn Guðmundsson segir mun meira um það í dag að fólk vilji búa í bústöðum en fyrir þrjátíu árum.

Sveinn segir að lagabreytingin frá 2006, sem girti fyrir lögheimilisskráningu í frístundabyggð, gangi þvert gegn Hæstaréttardómnum frá 2005 og raunar gegn stjórnarskránni. Það er honum kappsmál að fólk fái að búa í frístundahúsum. „Það ættu að vera réttindi manna að geta valið sér búsetu og það er bara varið í stjórnarskránni. Það er það sem við viljum fá í gegn.“

Hann bindur vonir við að starfshópur um lögheimili, sem nú er starfandi, komist að sömu niðurstöðu og að lausn finnist sem bæði sveitarfélögin og íbúar frístundabyggða geti sætt sig við.

„Tilbúin að selja sig undir minni þjónustu“

„Við erum tilbúin til þess að skoða það að lögheimilið hafi takmarkaða þjónustu í þessu tilviki. Fólk er alveg tilbúið að selja sig undir minni þjónustu ef það fær að hafa lögheimilið þarna. Sveitarfélögin hafa verið langhræddust við þetta út af þjónustuþættinum og ég get svo sem skilið það en á móti spyr ég, hvaða þjónustu eru sveitarfélögin að veita okkur, afskaplega litla. Ef þau veita okkur einhverja þjónustu, skilgreinda sem slíka, eins og til dæmis með seyrulosun og sorplosun þá erum við að borga fyrir það með sérstökum gjöldum, það er ekki inni í fasteignagjöldunum sem eru skattur.“ 

Sveinn vill að fólk fái að skrá sig til heimilis, fá póstinn og lágmarksþjónustu. Lögheimili án allra réttinda sem fylgja. En hvað um börnin? Það er eitthvað um að fjölskyldufólk flytji í sumarbústaði. Ef af þessum breytingum yrði, yrðu réttindi barna þess til að sækja skóla í sveitarfélaginu takmörkuð? 

„Að sjálfsögðu myndu þau sækja skóla í viðkomandi sveitarfélagi, við skulum hafa það í huga að sveitarfélögin fá útsvarið, þau eru að auka tekjur sínar og með tekjum koma náttúrulega skyldur. Í þessum tilvikum, sem ég held að yrðu mjög fá, yrði að finna lausnir á því,“ segir Sveinn.  

Sambandið sjálft tekið á brunavörnum

Hann er gagnrýninn á sveitarfélögin og spyr í hvað fasteignagjöldin fari, þau virðist ekki skila sér til frístundabyggða. Hann segir að þegar séu í lögum ákvæði um að sorp sé hirt frá gámum í grennd við frístundahús allt árið en ekki fari öll sveitarfélög eftir því. Snjómokstur hafi verið takmarkaður og Landssambandið fari ekki fram á að sveitarfélög moki veg að einu húsi eða tveimur. Hann segir að sambandið hafi sjálft ráðist í verkefni til að tryggja brunavarnir og fá öryggisnúmer á öll sumarhús þannig að viðbragðsaðilar eigi auðvelt með að staðsetja þau. Sveitarfélögin hafi ekki látið sig það varða. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Erindi Landssambandsins til starfshópsins.

Ekki hægt að útiloka félagsleg vandamál

Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands sveitarfélaga, segist undrandi á afstöðu Landssambands sumarhúsaeigenda. Hann telur það ekki endilega hag allra sumarbústaðaeigenda að leyfa búsetu í sumarhúsahverfum. Við það fái hverfin á sig annan blæ og ekki sé hægt að útiloka að félagsleg vandamál skjóti upp kollinum. 

Sambandið hefur tekið skýra afstöðu gegn þessari búsetu. Það telur að heimild til að flytja lögheimili í sumarbústað geti grafið undan forræði sveitarfélaga í skipulagsmálum og rekstrargrundvelli þeirra og hefur sérstakar áhyggjur af þeim afleiðingum sem slíkt gæti haft í sveitarfélögum þar sem eigendur frístundahúsa eru fleiri en íbúar sveitarfélagsins. Opinber þjónusta gæti orðið dýrari, jafnvel gæti þurft að skerða hana. Þá séu aðstæður í frístundabyggðum víða þannig að erfitt sé að tryggja þjónustu árið um kring þar sem aðgengi að svæðunum sé erfitt, snjómokstur sé þannig nánast útilokaður nema með óheyrilegum kostnaði. 

Breytingatillaga í drögum tekin út

Ný lög um lögheimili og aðsetur tóku gildi um áramót, í drögum að þeim var lagt til að heimila fólki að skrá sig til lögheimilis í frístundabyggð að fengnu sérstöku samþykki frá sveitarstjórn.

Samband sveitarfélaga lagðist gegn breytingunni og var ákvæðið fellt brott áður en frumvarp var lagt fram á Alþingi.

Í umsögn Sambands sveitarfélaga um drögin er vísað í skipulagsreglugerð þar sem tekið er fram að búseta í frístundabyggð sé óheimil, þá vakti Samband sveitarfélaga athygli á grenndarrétti þeirra sem eiga hús í frístundabyggð. Þá segir þar að útsvarshlutfalll í sumum sveitarfélögum, þar sem er mikil sumarhúsabyggð, sé lægra en gengur og gerist og því geti verið freistandi fyrir eigendur frístundahúsa að óska eftir lögheimilisflutningi. 
Það sveitarfélag sem flutt sé frá, sem í flestum tilvikum sé það sveitarfélag þar sem einstaklingurinn vinnur og sækir þjónustu, hafi þá ekkert um málið að segja. 

Mynd með færslu
 Mynd:

Höfuðborgarsvæðið teygi sig upp í Kjós 

Sveinn setur þetta í sögulegt samhengi og bendir á að við sunnanvert Elliðavatn hafi byggð byrjað í frístundahúsum, nú sé þar komið þéttbýli þar sem fólk geti haft lögheimili. Einar Tönsberg, tónlistarmaðurinn í Kjósinni, telur að þetta verði raunin þar, ekki langt í að byggðin á höfuðborgarsvæðinu teygi sig upp í Kjós og lögheimilisskráning verði auðsótt. „Ég held það gerist bara sjálfkrafa, að skipulagi á þessum svæðum verði jafnvel bara breytt.“ 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Óhefðbundið húsnæði: Í garðinum hjá M og P

Menningarefni

Óhefðbundið húsnæði: Ánægð í þrettán fermetrum

Menningarefni

Óhefðbundið húsnæði: „Skúta er lifandi skepna“