Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óhefðbundið húsnæði: „Skúta er lifandi skepna“

Mynd:  / 

Óhefðbundið húsnæði: „Skúta er lifandi skepna“

29.01.2019 - 16:07

Höfundar

Á Íslandi eru stórir hópar fólks fastir; fastir á leigumarkaði, í foreldrahúsum, í óleyfishúsnæði. Flestir vilja kaupa sér íbúð en það er ekki á allra færi. Margir eru eflaust orðnir leiðir á að verja stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í húsaleigu. Suma óar við að skuldsetja sig og greiða af láni áratugum saman. Er eitthvað annað í boði? Næstu daga fjallar Spegillinn um fólk sem valið hefur óhefðbundnar leiðir til að koma þaki yfir höfuðið; af hugsjón, til að búa ódýrt eða hvoru tveggja.

Seldu fjögurra herbergja íbúð

Ferðalagið byrjar við flotbryggju í Hafnafjarðarhöfn þar sem Markús Elvar Pétursson og Helena Línudóttir Kristbjörnsdóttir búa í Skútunni Sæúlfi ásamt 15 ára dóttur og 24 ára syni.

Mynd með færslu
 Mynd:
Sæúlfur við flotbryggjuna.

Þau Markús og Helena hafa ferðast um heimsins höf, siglt hátt í þrisvar sinnum í kringum hnöttinn á ellefu árum. „Þetta hefur alltaf blundað í mér, alltaf verið draumur. Þegar ég kynntist konunni þá var verið að gefa út Í kjölfar kríunnar og hún fékk bara að lesa hana og vita að þetta væri stefnan. Svo liðu fimmtán ár, við eignuðumst hús og krakka. Báturinn þurfti alltaf að verða stærri og stærri en fasteignaverð hækkaði líka og hækkaði og árið 2005 sáum við fram á að geta eignast bát. Þá kom smá lægð í fasteignamarkaðinn þannig að við ákváðum að bíða en unnum samt í þessu á fullu. Árið 2007 var okkur hætt að lítast á blikuna, settum á fullt að komast í sambönd og kaupa bát. Við seldum fjögurra herbergja íbúð og áttum fyrir startinu og öllu saman." 

Mynd með færslu
 Mynd:
Markús segist nánast vera hættur að taka eftir venjulegu hljóðunum sem tengjast siglingum, marrinu í bátnum og suðinu í kyndingunni. Hann taki bara eftir óvenjulegum hljóðum.

Vildu gera eitthvað minnisstætt með börnunum

Markmiðið var ekki að finna nýja húsnæðislausn eða losa um peninga, þetta snerist um að láta þennan draum um að sigla um heimsins höf rætast og gera eitthvað minnisstætt með börnunum sem þá voru fimmtán ára, tólf ára og sex ára. „Dóttir okkar býr hér með okkur, þriðja barnið. Við höfum alltaf farið í ársreisu með þau þegar þau hafa átt að vera í níunda bekk. Við kláruðum rúmlega ársreisu núna í september. Svo er elsti strákurinn hjá okkur líka. Hann er orðinn 24 ára, vinnur sem vélstjóri á grænlenskum línubát sjö vikur og er svo hjá okkur hinar sjö. Hann er að safna sér peningum, hvað sem hann gerir við þá.“ 

 „Vorum algjörir lukkugrísir“

Mynd með færslu
 Mynd:
Útsýnið út um eldhúsgluggann.

„Við vorum náttúrulega algjörir lukkugrísir. Við náðum að selja fasteignina rétt fyrir hrun og vorum að flytja aleiguna til Bretlands til að borga fyrir bátinn þegar krónan var alveg eins og tryllt skepna. Það voru rosalega spennandi tímar. Við  komum peningunum út án þess að þeir skertust mikið en síðan tók krónan algjöra dýfu eftir það og við áttum bara þvílíkt mikið í þessum bát því það var allt í pundum. Svo sér maður náttúrulega bara vinina lenda í þessum kröggum sem dundu hér á þjóðinni og við sigldum bara nokkuð lygnan sjó.“

Borga 80 þúsund á mánuði fyrir hafnarpláss og olíu

Markús og Helena greiddu 165 þúsund pund fyrir bátinn árið 2008 og Markús áætlar að þau gætu fengið um 100 þúsund pund fyrir hann í dag, það jafngildir um 15,7 milljónum króna. Í fimm ár af þeim ellefu sem þau hafa átt bátinn hafa þau haft vetursetu í Hafnafjarðarhöfn. Hin sex árin geymdu þau bátinn á landi niðri við Miðjarðarhaf á veturna og fóru sjálf til Íslands að vinna. „Þá var hægt að fá íbúðir á sómasamlegu verði á leigumarkaði, en árið 2015 var orðið útséð með það og betra að sigla honum heim.“ 

Mynd með færslu
 Mynd:
Heimreiðin.

Að búa í bátnum í Hafnarfjarðarhöfn kostar fjölskylduna um 80 þúsund krónur á mánuði. „Við erum á svokölluðum læstum almenning, við borgum fyrir bát sem er lengri en níu metrar og það kostar okkur 27 þúsund á mánuði plús virðisauka.“  Innifalin í hafnargjaldinu er sorphirða og aðgangur að neysluvatni en greitt er aukalega fyrir rafmagn. Þau kynda með dísilolíu. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Kyndingarkostnaður lækkar mikið á sumrin.

Yfir vetrarmánuðina getur kostnaðurinn við það numið um 50 þúsund krónum en um 25 þúsund krónum á sumrin. Markús segir að verð á kílóvattstund af rafmagni sé hærra á höfninni en í íbúðarhúsnæði vegna álagningar en rafmagnskostnaður fjölskyldunnar sé þó lítill enda skútan hönnuð til að nota sem minnst rafmagn, led-lýsing og sparneytin tæki. Síðast hafi þau greitt um tíu þúsund krónur fyrir þriggja mánaða tímabil. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Markús segir rafmagnskostnaðinn lágan þrátt fyrir að kílóvattstundin sé dýrari en í íbúðarhúsnæði.

Verri veður undan ströndum Mallorca

Veðrið truflar þau ekki. „Það er aldrei alda hérna í höfninni, þetta er einstök höfn, alger gersemi á höfuðborgarsvæðinu. Jújú, það blæs en okkar verstu veður höfum við ekki upplifað hér heldur við fjöll eins og á Mallorca þar sem vindurinn ferðast í gegnum skörð“

Áttu íslenska nágranna í tvö ár

En hvað um regluverkið? Tekur kerfið það í sátt að fólk búi í bát? „Það hefur alltaf tíðkast að menn búi í bátum á Íslandi. Hér í Hafnarfjarðarhöfn eru tveir rússneskir togarar, vetur eftir vetur. Mér skilst allavega að þeir séu rússneskir. Þetta eru bátar sem fara á úthafskarfa á vorin og kallarnir búa um borð. Við búum um borð hér og við áttum íslenska nágranna um tveggja ára skeið. Kerfið gerir ráð fyrir að þú búir í bátnum þínum, það er ekkert sem mælir gegn því.“ 

Mynd með færslu
 Mynd:
Í eldhúsinu, stærsta rými skútunnar.

Þjóðskrá mætti þó vera liðlegri að hans mati. Þau mega ekki skrá lögheimili í bátnum. „Við skráum lögheimili í Norðurbæ, hjá foreldrum. Þá er skólagangan á hreinu hjá dótturinni sem er enn í grunnskóla. Ég skil ekki hvers vegna hagstofa getur ekki hætt að miða við þetta heimilisfang og verið með vottaðan tölvupóstþjón því öll skjöl eru orðin rafræn í dag. Mér skilst að þetta snúist um að það sé hægt að ná í viðkomandi þar sem hann segist vera en tæknin er þannig í dag að öll skjöl sem skipta máli eru rafræn og hægt að senda þau á tölvupóst sem þú tékkar alveg eins og pósthólfið þitt sem hangir á húsinu þínu.“ 

Í svari Þjóðskrár við fyrirspurn Spegilsins segir að einungis sé heimilt að skrá lögheimili í íbúðarhúsnæði sem skráð er sem slíkt í fasteignaskrá og hefur staðfang  Þjóðskrá er heimilt að skrá einstakling til lögheimilis í sveitarfélagi án tilgreinds heimilisfangs ef hann býr í húsnæði sem ekki má skrá sem lögheimili. Þá á að miða við það sveitarfélag þar sem viðkomandi hefur haft þriggja mánaða samfellda dvöl. 

Hægt að fá þokkalegan bát á fjórar milljónir

En getur það að flytja í húsbát eða skútu verið einföld lausn á húsnæðisvanda? Tækifæri til að frelsa sig undan okinu sem fylgir því að greiða hundruð þúsunda í leigu? „Einstaklingur sem vill fá sér þak yfir höfuðið og einhvern stað til að borða á og sofa gæti alveg orðið sér úti um þokkalegan bát fyrir þrjár fjórar milljónir. Þegar einstaklingarnir verða tveir þá flækjast málin en það er alveg endalaust af pyttum að detta þarna ofan í.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Skútan er á læstum almenningi.

„Ég held það séu til auðveldari leiðir“

Markús segir ekkert einfalt við að kaupa bát og að það sé endalaus vinna að eiga bát. Það þurfi bæði mikinn tíma og mikla þekkingu. „Bara mjög breiða þekkingu á ferlinu við að finna bát, kaupa bát, koma bát til landsins því það er ekki mikið af bátum hérna heima. Síðan er það að búa í bát. Bátur er bara lifandi skepna liggur við, maður þarf virkilega að halda í við viðhaldið á honum annars verður þetta bara ósjóklárt drasl í höfninni á mjög stuttum tíma. Það er alls ekki á færi hvers sem er að fara þessa leið, ég held það séu til auðveldari leiðir.“ 

Öryggisventill að hafa fólk á staðnum

Skipulagsstjórar sveitarfélaga og byggingafulltrúar sem Spegillinn ræddi við sögðust ekki skipta sér af búsetu í bátum og gátu ekki bent á neinar sérreglur um hana. Spegillinn fékk þær upplýsingar frá Hafnarfjarðarhöfn að ekki væri amast við því að fólk hefði þar vetrarsetu, það gæti verið ákveðinn öryggisventill að hafa fólk á staðnum. Þessi afstaða yrði þó hugsanlega endurskoðuð tækju stórir hópar fólks upp á því að flytja í höfnina.

Mynd með færslu
 Mynd:
Skútur í Ísafjarðarhöfn.

Dæmi eru um að fólk hafi haft vetrarsetu víðar, svo sem við Reykjavíkurhöfn, Akureyrarhöfn og Ísafjarðarhöfn. Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði, segir að þar hafi alltaf einhverjir haft vetrarsetu, nánast öll þau sextán ár sem hann hefur gegnt embættinu.

Ekki eins og húsbátahafnir í Evrópu

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna segir þekkt að fólk gisti í bátum sínum einhverja daga á meðan þeir liggi við höfn. Þá hafi fjölskylda haft vetrarsetu í höfninni fyrir nokkrum árum. Síðustu ár hafi borist örfáar beiðnir frá fólki sem hafi haft áhuga á að setjast að í höfninni til lengri tíma. Þeim beiðnum hafi verið hafnað. Gísli segir að bátarnir þurfi að vera haffærir. Þá segir hann Reykjavíkurhöfn ólíka húsbátahöfnum í Evrópu, þær séu oft á ám eða til hliðar við venjulega hafnarstarfsemi og bátarnir því ekki fyrir. Gísli segir regluverkið ekki gera ráð fyrir langtímabúsetu í höfnum, hún teljist því óleyfisbúseta. Til að húsbátalíf verði valkostur þyrfti að hans mati að setja reglur um brunavarnir, skólp, vatn og rafmagn.

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Reykjavíkurhöfn, beiðnum um að fá að búa í höfninni til lengri tíma hefur verið hafnað.

Áhugi á gistiheimilisrekstri 

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri, hefur á tilfinningunni að það gæti færst í aukana að fólk dvelji í bátum, höfnin hafi fengið fyrirspurnir frá fólki sem vilji bjóða ferðamönnum gistingu í skútum. Hann viti ekki til þess að það séu reglur til um búsetu í höfnum en hafnirnar þurfi augljóslega að skoða þetta, vera með á hreinu hvað megi og hvað megi ekki.