Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óhefðbundið húsnæði: Líður okkur vel í litlu?

Mynd:  / 

Óhefðbundið húsnæði: Líður okkur vel í litlu?

06.02.2019 - 11:06

Höfundar

Arkitekt hefur ekki trú á smáhýsum sem almennri húsnæðislausn. Forstjóri Mannvirkjastofnunar segir að það að búa í smáu rými geti leitt til alvarlegs þunglyndis, jafnvel sjálfsvíga. Umhverfissálfræðingur varar við því að sveipa smáheimili of miklum ævintýraljóma en segir heldur ekki í lagi að dæma þessa lausn á grundvelli persónulegra skoðana. 

Draumkenndar myndir á samfélagsmiðlum

Í síðustu viku ræddi Spegillinn við Valdísi Evu Hjaltadóttur sem býr í 13 fermetra heilsárshúsi á hjólum og unir hag sínum vel. Segist einskis hafa saknað í þá fjóra mánuði sem hún hefur búið í húsinu og að það sé ótrúlegt hversu miklu megi koma fyrir á 13 fermetrum. 

Valdís er ekki ein, úti í heimi hafa margir kosið sér þennan lífsstíl og á Íslandi virðast margir áhugasamir um hann þótt lóðaskortur og regluverk hafi staðið í vegi fyrir að fólk fari þessa leið. Starfrækt eru Samtök áhugafólks um smáheimili á Íslandi og hátt í fimm þúsund eru meðlimir í Facebook-hóp um smáheimili.

Mynd með færslu
 Mynd:

Smáheimili hafa oft yfir sér draumkenndan blæ. Á Pinterest og Instagram er hægt að finna ógrynni af myndum af haganlega hönnuðum heimilum. Yfirleitt standa þau einhvers staðar á fallegum stað, jafnvel smá garðskiki fyrir utan. Innandyra eru snjallar lausnir og huggulegheit í fyrirrúmi og eigendurnir tala um frelsi; frelsi frá því að greiða háa leigu, frá efnishyggju, frá því að vera bundnir einhverjum ákveðnum stað. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Valdís á heimili sínu.

Þvottakarfan tók völdin í íbúðinni

Smáhýsabúseta er ekki gallalaus og sumir hafa opnað sig um ókosti hennar á netinu. Það hvað húsið verður fljótt skítugt, hvað það getur verið erfitt að taka á móti fólki, um nándina sem getur orðið of mikil, skilningsleysi og dómhörku annarra og einangrun.

Í grein á vefsíðu New York Times fjallar ung kona, Gene Tempest, um líf sitt í smáíbúð, hvernig litlir hversdagslegir hlutir fóru að gera sig breiða í rýminu. Ódýr plastþvottakarfa úr Target tók völdin í íbúð Tempest, hlutur sem líklega hefði borið minna á í stærra rými. Lykt gat líka verið til trafala. Eftir að Tempest brúnaði lauk var lyktin viðloðandi í marga daga og náðist seint úr íþróttatoppnum hennar. Hún segir að smáíbúðin fylgi henni hvert sem hún fer. Hlutirnir slitni líka hraðar, það sé kominn lítill slóði í gólfteppið sem beri ferðum hennar og eiginmannsins að og frá kaffivélinni vitni.

Meiri stjórn en í nánu sambýli

Sally Augustin, doktor í sálfræði, fjallar um smáheimilabúsetu í sálfræðitímaritinu Psychology today. Þar segir hún það að búa í smáhýsi geta verið góðan kost velji fólk það sjálft. Augustin segir hluta þeirra sem kaupa sér smáhýsi gera það af efnahagslegum ástæðum, í smáhýsinu geti einstaklingar verið út af fyrir sig í stað þess kannski að búa þröngt með öðru fólki, sem er með allt aðra sýn á hvernig á að hugsa um heimili eða hvenær á að slökkva á sjónvarpinu á kvöldin. Það sé mikilvægt að fólk upplifi að það hafi stjórn á lífi sínu og í smáhýsi eigi einstaklingar auðveldara með það en í nánu sambýli. 

Hvar liggja mörkin?

Sumir halda tryggð við litlu húsin sín en aðrir fá nóg, átta sig á því að það að búa í fimmtán fermetrum er ekki þeirra. Það getur líka ýmislegt gerst, það bætist kannski við nýr fjölskyldumeðlimur sem þarf að ganga með um gólf.   

En hvað segja sérfræðingar? Líður fólki almennt vel í smáhýsum? Eru einhver takmörk fyrir því hversu þröngt er hægt að búa? 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Frá Djúpavogi.

Á Djúpavogi eru uppi vangaveltur um að koma upp smáhýsabyggð og fyrir nokkrum árum tók Páll Jakob Líndal, umhverfissálfræðingur, þátt í umræðu um hversu lítil húsin í slíkri byggð gætu verið. „Þar vorum við að ræða hvort tuttugu fermetrar gætu hugnast fólki en þá var líka gert ráð fyrir því að það hefði aðstöðu í einhverju sameiginlegu húsi, að það gæti farið út úr húsinu og eitthvert annað án þess að þurfa að vera gestkomandi á öðru heimili. Okkur sem tókum þátt í þessari umræðu fannst tuttugu fermetrar ansi lítið. Síðan fór ég með þessar hugmyndir og ræddi þær við áhugamenn um smáhýsi, í samtökunum HÁS. Þar var mjög vel tekið í þessa stærð, fólki fannst það bara mjög eftirsóknarverð hugmynd að búa á Djúpavogi í tuttugu fermetra húsi.“

Ekki hægt að styðjast við persónulegar skoðanir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Páli Jakobi finnst erfið tilhugsun að búa í 20 fermetrum á Djúpavogi.

Sjálfum fannst Páli Jakobi ekki hljóma vel að búa í tuttugu fermetra húsi á fámennum stað. „Hálft árið er myrkur og veðrið getur tekið í. Mér finnst þetta erfið tilhugsun en þarna erum við komin í umræðu sem er svo mikilvægt að við nálgumst með vísindalegum og kerfisbundnum hætti, þess vegna getur verið svo vafasamt að álykta um of út frá eigin tilfinningu. Það þarf að byggja upp gagnabanka með kerfisbundnum hætti og spyrja spurninga sem skipta máli í stóra samhenginu. Það er það sem gleymist oft og úr verður svona umræða um smekksatriði sem á að sumu leyti rétt á sér, því við erum ekki öll eins en við megum ekki gleyma því að í þessu öllu saman eru mjög sterkar tilhneigingar í ákveðnar áttir. Við getum ekki bara rétt upp puttann og sagt: af því mér finnst það ekki eftirsóknarverð hugmynd að búa í 15 fermetra húsnæði, þá bara gengur það ekki.“ 

Frumstæð þörf fyrir skjól og útsýni

Páll, segir líðan fólks í húsnæði ráðast af ýmsum þáttum. Svo sem birtu, loftgæðum, því að gluggar vísi í fleiri en eina átt og hljóðvist sé góð. Hann segir manneskjur ekki hrifnar af því að vera í aðþrengdu rými, við höfum frumstæða þörf fyrir skjól og útsýni svo við getum komið auga á hættur. Þessi þörf komi þó ekki í veg fyrir að fólki geti liðið vel í tíu til tuttugu fermetra smáhýsi. Það ráðist af persónulegum þáttum, svo sem því hvort það hafi valið þetta hlutskipti sjálft. Þættir í umhverfinu hafi líka áhrif. Páll hefur sterkt á tilfinningunni að fólk þurfi að geta farið út úr kassanum inn í önnur rými.

„Megum ekki rómantísera þetta“

Fermetrafjöldi smáhýsa þurfi þannig að ráðast af stærra samhengi; staðsetningu þess, aðgengi að sameiginlegum rýmum og afþreyingu. „Af því þetta er lítið og þetta gerir ofboðslega miklar kröfur til okkar. Fyrir suma getur þetta hentað, fyrir aðra ekki en við þurfum að passa okkur á því að rómantísera þetta ekki meira en ástæða er til. Það þarf að skoða þetta gaumgæfilega áður en við ráðumst í stórtækar aðgerðir í þessum efnum.“ 

Stundum reynist draumurinn kannski ekki vera draumur efir allt saman. Páll telur að fólk þyrfti kannski að prófa að búa þröngt í einhvern tíma áður en það slær til og kaupir fimmtán fermetra hús eða annað þvíumlíkt. 

Geti verið hættulegt andlegri heilsu

Mynd með færslu
 Mynd:
Björn segir óhollt að búa í 15 fermetrum.

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, varar við því að búa þröngt og vísar meðal annars til rannsókna sem gerðar voru í tengslum við geimferðir á sjöunda áraugnum. „Við viljum ekki að fólk sé að búa í einhverjum tíu, fimmtán fermetrum. Það er bara óhollt, það eru bara rannsóknir sem sýna það. Breska arkitektafélagið hefur gefið út rit um þetta, hvað er velsæmi hvað varðar fermetrafjölda. Við vitum að Svíar hafa byggt tíu fermetra kofa með svefnlofti fyrir námsmenn, þeir gerðu það á undanþágu og námsmaðurinn varð að hafa samband og segja frá því hvernig honum leið, því rannsóknir sýna fram á að það er bara aukin tíðni sjálfsmorða ef menn búa mjög þröngt. Nú erum við manneskjur bara mjög mismunandi að gerð, sumir eru hæstánægðir með að búa á litlu heimili en aðrir gætu verið viðkvæmir fyrir því.“  

Það að búa í geimskipi á sporbaug um jörðu, innilokaður í þyngdarleysi, fjarri fjölskyldu og vinum er kannski ekki alveg það sama og að búa í smáhýsi í litlu rjóðri á jörðu niðri.

Spegillinn skoðaði ritið frá breska arkítektafélaginu, The case for space frá árinu 2011. Þar kemur fram að flestar nýjar íbúðir í Bretlandi uppfylli ekki viðmið um lágmarksstærð. Gert er ráð fyrir að þriggja herbergja íbúð sé minnst 96 fermetrar en meginþorri nýrra þriggja herbergja íbúða er bara 88 fermetrar. Átta fermetrar samsvara svefnherbergi eða eldhúskróki með borði, segir í skýrslunni. Þar er líka fjallað um hvernig rými hefur áhrif á það hvar fólk eldar og borðar mat, hvernig það geymir eigur sínar og hvernig húsgögnum það getur komið fyrir. Það hefur áhrif á samverustundir og félagslíf, til dæmis hvort fjölskyldan getur setið saman einhvers staðar eða boðið vinum í mat. Rýmið hefur líka áhrif á hvort fólk getur verið í næði og átt einkalíf og hvort hægt er að gera breytingar á húsnæðinu, breytist aðstæður íbúa eða heilsufar. 

Þrengsli grafi undan fjölskyldutengslum

Í ritinu er vísað í rannsóknir sem hafa sýnt fram á neikvæð áhrif þess þegar margir búi á fáum fermetrum, jafnvel í lélegu húsnæði. Það geti valdið kvíða og þunglyndiseinkennum, grafið undan fjölskyldutengslum og haft neikvæð áhrif á námsárangur barna. Í skýrslunni er þó ekkert minnst á sjálfsvíg. Rannsóknirnar eru nokkurra ára gamlar og virðast ekki taka sérstaklega til smáhýsa nútímans.  

Sænska lausnin sem Björn nefndi kallast Bokompakt. Hann segist hafa heyrt af því í gegnum störf sín sem meðprófessor við Háskólann í Lundi að nemarnir þyrftu að greina frá líðan sinni reglulega. Niðurstaða úttektar sem gerð var á upplifun nemenda af búsetu í smáíbúðum sýndi að flestir voru jákvæðir í garð þeirra, töldu ástæðu til að byggja fleiri slíkar íbúðir. Einhverjir hefðu viljað aðeins meira rými og fámennur hópur nefndi að það hefði neikvæð áhrif á andlega líðan sína að dvelja lengi í rýminu. 

Íslenskt veðurfar takmarki möguleika

Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, efast ekki um að margir uni hag sínum vel á smáum heimilum en hefur ekki mikla trú á þeim sem langtímalausn í húsnæðismálum. Arkitektastéttin horfi frekar til þess að auka lífsgæði fólks í almennu húsnæði. „Ég skil vel þar sem er hörgull á húsnæði og húsnæði alveg gríðarlega dýrt. Það eru skiljanlegar forsendur en ég er ekki alveg viss um að fólk sé búið að staðfæra þetta á íslenskar aðstæður. Það má ekki gleyma því að til dæmis erlendis er bara veðurfarið öðruvísi og þú hefur kannski möguleika á að búa sumarlangt úti í garði, meira eða minna, og fara bara inn til að sofa.“ Þá nefnir hún íslenska menningu, hér fari félagslíf fólks að stórum hluta fram inni á heimilum þess og margir geri ráð fyrir að geta tekið á móti næturgestum. Það kalli á pláss. Aukin tilhneiging fólks til að vinna heiman frá sér geri það sömuleiðis. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Hildigunnur segir arkitekta horfa í aðrar áttir.

Hún segir ekki hagkvæmt eða í samræmi við áform um þéttingu byggðar að nýta dýrar lóðir í þéttbýli undir smáhýsi. Þetta sé sparnaður fyrir einstaklinginn en dýrt fyrir samfélagið. En er þá ekki bara hægt að búa í smáhýsi utan þéttbýlis? Jú, segir Hildigunnur, rannsóknir hafi meira að segja sýnt að nálægð við náttúruna stuðli að bættri lýðheilsu. Innviðirnir nýtist þó betur í þéttbýlinu og þá geti verið öryggi í því fólgið fyrir fólk að vita af öðrum í kringum sig. 

Flestir nemendur fóru í gegnum smáheimilafasa

Hildigunnur kenndi lengi við Listaháskólann og lét þá nemendur velta því fyrir sér hversu smáar íbúðir gætu orðið. Flest þeirra fara að hennar sögn í gegnum ákveðinn smáheimilisfasa, gámaverkefni skjóti alltaf upp kollinum og mörg séu skemmtileg. „Ég held það búi með þeim að hafa spurt sig hver lágmarksstærðin þurfi að vera til að manneskja geti athafnað sig. Ég er ekki að segja að þau hoppi frá hugmyndinni strax og þau sjá niðurstöðuna, alls ekki en ég held að eftir því sem maður starfar lengur við fagið og gerir fleiri verkefni fari innsæið, reynslan og þessi tilfinning fyrir mannlegri vist að segja manni aðra hluti.“  

Horfir frekar til deililausna

Hildigunnur vill ekki nefna neinn lágmarksfermetrafjölda en segir mikilvægt að fólk geti hreyft sig og athafnað sig heima hjá sér. Það séu lífsgæði í því fólgin að geta skipt um vistarverur, þurfa ekki að borða, sofa og taka á móti fólki í sama rými. Þá skipti miklu að geta verið í næði. Það sé til dæmis varhugavert að setja stærri fjölskyldur inn í lítið rými. Börn þurfi ekki endilega sérherbergi en þau þurfi að geta dregið sig í hlé. „Ég sem arkitekt myndi miklu frekar vilja sjá uppbyggingu góðs, sveigjanlegs húsnæðis.“ Hún horfir til dæmis til deililausna. Íbúðirnar sjálfar geta þá verið litlar en þeim fylgir aðgangur að stærra, sameiginlegu rými, svo sem eldhúsi eða setustofu, líkt og tíðkast oft á stúdentagörðum eða öldrunarheimilum. Þannig uppfylli heimilið helstu þarfir, bæði fyrir samveru og einveru. „Við þurfum sem manneskjur bæði okkar einkarými þar sem manni getur liðið illa og maður getur leyft sér að búa ekki um eða taka ekki til og svo framvegis. Svo þarf þetta almenna, félagslega rými. Hvert og eitt heimili gegnir þessum tveimur hlutverkum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í deililausnum er oft sameiginlegt eldhús og setustofa. Hildigunnur horfir líka til lausna sem gera kynslóðunum kleift að búa saman.

Er hægt að yfirfæra eldri rannsóknir á smáheimilabúsetu? 

Rannsóknirnar sem Björn vísaði til eru nokkurra ára gamlar og virðast ekki taka sérstaklega til smáhýsa heldur almennt til þess þegar fólk býr þröngt eða illa. Hildigunnur telur samt að hægt sé að yfirfæra rannsóknirnar á smáheimilabúsetu. Páll þekkir ekki til þessara rannsókna en telur ekki endilega hægt að yfirfæra niðurstöður þeirra yfir á smáhýsi nútímans, sérstaklega ekki rannsóknir tengdar geimförum. Hugsanlega hafi verið fleira að en bara plássleysi, svo sem ónóg birta eða vont loft. 

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Óhefðbundið húsnæði: „Þú átt ekkert heima þar“

Menningarefni

Óhefðbundið húsnæði: Í garðinum hjá M og P

Menningarefni

Óhefðbundið húsnæði: Ánægð í þrettán fermetrum

Menningarefni

Óhefðbundið húsnæði: „Skúta er lifandi skepna“