RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Ógnir sem steðja að DR geta haft víðtæk áhrif

Mynd með færslu
 Mynd: SVT

Yfirlýsing útvarpsstjóra 10 almannaþjónustumiðla í Evrópu

Ógnir sem steðja að Danska ríkisútvarpinu (DR) geta haft umtalsverðar og víðtækar afleiðingar. Þetta eru skilaboðin í yfirlýsingu sem tíu útvarpsstjórar almannaþjónustumiðla í Evrópu sendu frá sér í dag til stuðnings danska ríkisútvarpinu (DR). 

Yfirlýsingin í heild sinni er eftirfarandi.

Að undanförnu hafa borist vísbendingar frá Danmörku sem okkur finnst ástæða til að hafa miklar áhyggjur af. Frá haustdögum hefur ríkisstjórn Danmerkur átt í samningaviðræðum við Danska þjóðarflokkinn (Dansk Folkeparti) um miklar breytingar á skattkerfinu. Rætt er um hvort afnema eigi afnotagjaldið sem innheimt er til að fjármagna Danska ríkisútvarpið, DR, og setja skatt í staðinn. Danski þjóðarflokkurinn – flokksmenn hans hafa, annað veifið, haldið því fram að DR sé „lýðræðisleg ógnun“ – hefur bætt við annarri kröfu: Að fé til DR verði skorið niður um 25 prósent.  

Samkvæmt fréttum í dönskum fjölmiðlum reyndi ríkisstjórn Danmerkur upphaflega að takmarka niðurskurðinn við 12,5 prósent. Samningaviðræðurnar standa enn og ekki er hægt að líta fram hjá hættunni á að niðurskurðurinn verði á endanum miklu alvarlegri. 

Hvaða gildi eru í húfi í samningaviðræðunum sem nú standa yfir milli danskra stjórnmálamanna? Hvaða gildi eru í húfi þegar ríkisstjórnir annarra Evrópulanda annað hvort skera niður fé til ríkisútvarps eða auka yfirráð sín yfir blaðamennsku með harðneskjulegri lagasetningu?

Samkvæmt skýrslu, sem Reuters-stofnunin (Reuters Institute) við Oxford háskóla gaf út í nóvember 2016, og danska menntamálaráðuneytið tók í gildi, eru menningarleg og lýðræðisleg áhrif efnis í almannaþágu mikilvæg. Útvarpsstöðvar í almannaþjónustu birta meira fréttatengt efni en sambærilegar stöðvar sem styrktar eru með auglýsingum; þær bæta þekkingu borgara á stjórnmálum og hafa jákvæð áhrif á þátttöku í stjórnmálum.  

Á tímum breikkandi bils milli andstæðra fylkinga og aukinnar fjarlægðar milli ólíkra hópa í samfélaginu er varla hægt að leggja nógu mikla áherslu á mikilvægi þess að til séu vel starfhæfir, traustir ríkisfjölmiðlar við hliðina á hágæða fjölmiðlum sem styrktir eru með auglýsingum. Líklegt er að þrýstingurinn sem settur er á lýðræðið með fölskum fréttum og fréttum sem eru framleiddar til að gagnast sérstökum pólitískum málstað hafi miklu meiri áhrif en við höfum nokkurn tíma áður séð.

Viðbrögð frjálslynds lýðræðisríkis geta ekki verið þau að skera niður greiðslur og þrengja að starfsemi fjölmiðlafyrirtækis sem nýtur ótrúlega mikils almenns trausts sem hefur byggst upp á mörgum áratugum. Einu öflin sem nytu góðs af því yrðu þau sem sjá ekki hið augljósa, að frjáls og óháð fjölmiðlun er undirstaða lýðræðis. Við lesum áhyggjufull viðtal við Henrik Söndergaard, danskan fræðimann við Kaupmannahafnarháskóla. Í viðtali við danska dagblaðið Politiken leggur Söndergaard áherslu á það að „hættan á pólitískum afskiptum er greinilega til staðar.“

Það er líka mikilvægt að setja þróunina í Danmörku í víðara samhengi. Danskt lýðræði er, vissulega, ekki endilega í beinni og yfirvofandi hættu. En frjáls og óháð fjölmiðlun í heiminum er undir meiri þrýstingi en hún hefur verið lengi. Ástæðurnar eru fjölmargar: Sífellt breikkandi bil í pólitísku landslagi og mikill efnahagslegur þrýstingur frá leikmönnum víða að úr heiminum hefur dregið úr þróun og stöðugleika margra hágæða fjölmiðlafyrirtækja. Vaxandi valdboð í stjórnarfari sums staðar í Evrópu hefur haft í för með sér töluverðar breytingar á ríkisreknu útvarpi. Sem stendur er ástandið verst í Ungverjalandi og Póllandi. Það er ekki tilviljun að bæði löndin hafa hrapað niður frelsis kvarða samtakanna Fréttamanna án landamæra á undanförnum árum. 

Eitt er alveg ljóst: Ef áætlanir um að þrengja verulega að möguleikum DR til að starfa í almannaþágu koma til framkvæmdar verða afleiðingarnar þýðingarmiklar og víðtækar. Valkostir danskra stjórnmálamanna um ríkisútvarp eru einnig fyrir hendi í mörgum öðrum löndum Evrópu: Annað hvort að skera niður fjárveitingar og auka hættuna á pólitískum yfirráðum; eða tryggja langtímafjármögnun og byggja upp öflugri og árangursríkari varnir til að tryggja sjálfstæði og stöðugleika fjölmiðlunar í almannaþágu. Það þarf varla að taka fram að hið síðara stuðlar að lýðræði.

Undir yfirlýsinguna skrifa:
Tony Hall - útvarpsstjóri, BBC, Stóra Bretlandi
Shula Rijxman - útvarpsstjóri, NPO, Hollandi
Thor Gjermund Eriksen - útvarpsstjóri, NRK, Noregi
Dr. Alexander Wrabetz  - útvarpsstjóri, ORF, Austurríki
Gilles Marchand  - útvarpsstjóri, SRG SSR, Sviss
Magnús Geir Þórðarson - útvarpsstjóri, RÚV, Íslandi
Cilla Benkö - útvarpsstjóri, SR, Svíþjóð
Hanna Stjärne - útvarpsstjóri, SVT, Svíþjóð
Per Bergkrantz - starfandi útvarpsstjóri, UR, Svíþjóð
Tom Buhrow - útvarpsstjóri, WDR, Þýskalandi

 

10.01.2018 kl.13:38
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Bloggið