Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

… og Gylfi Sigurðsson í Svanavatninu

Gylfi Sigurðsson í baráttunni við Morgan Schneiderlin. - Mynd: AP / AP

… og Gylfi Sigurðsson í Svanavatninu

10.11.2016 - 16:07

Höfundar

Sigurbjörg Þrastardóttir flutti eftirfarandi pistil á útiskónum í Víðsjá 10. nóvember.

 

„Ég sat við sjónvarpið á sunnudaginn og horfði á Svanavatnið. Það er kannski ekki í frásögur færandi, hlustendur góðir, nema helst vegna þess að Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins, var þar í einu aðalhlutverkanna. Hann leið um í alhvítum búningi, eins og margir aðrir þátttakendur í Svanavatninu, og gerði ýmsar fagrar kúnstir. Þetta var hin besta skemmtun, ef satt skal segja – sumsé, viðureign Swansea City og Manchester United. Það má nefnilega, með góðum vilja, halda því fram að heiti velska fótboltaliðsins Swansea, sem leikur í ensku úrvalsdeildinni, þýði Svanavatn, Svanssjór, ef tekið er mið af stafsetningunni: Swan-sea. (Nema náttúrlega maður taki mark á opinberu skýringunni, sem segir að nafnið hafi upphaflega verið Sveins-ey, en það er bara ekki eins fyndið.)

Í öllu falli get ég vottað að það er fínasta afþreying, þegar maður situr yfir sjónvarpinu, að íhuga mögulega merkingu nafna sem eru orðin svo margtuggin að maður heyrir ekki lengur úr hverju þau eru búin til.

 

„Frá Lifrarpolli ljót berast org …“

Arsenal er annað lið í ensku deildinni, til heimilis í London. Arsenal þýðir, sem kunnugt er, vopnabúr, þannig að Svanavatnið á Sveinsey og Vopnabúrið gætu sem best mæst í bikarleik á næstunni. Svo eru það heiti eins og Nottingham Skógur, og Sameinuð Manchester, Notthingham Forest og Manchester United, án þess að farið sé út í að greina staðarheitin sjálf. Það er samt hægt. Lifrarpollur hefur t.d. verið notað sem bæði hljóðlíking og þýðing á borgarheitinu, og þar með fótboltaliðinu, Liverpool. Þetta man ég úr hinum ágæta texta Ólafs Hauks Símonarsonar, Gaggó Vest, en þar segir m.a. „…frá Lifrarpolli ljót berast org / lýðurinn dansar um stræti og torg.“ Þetta er lýsing óinnvígðra á tónlist Bítlanna, ég kann þetta vegna þess að í 12 ára bekk var ég með kennara sem lét okkur læra allan Gaggó Vest utan að og útskýrði helstu vísanir.

Svo eru auðvitað líka heiti í Premiere League sem eru kryptískari og sjaldgæfari – eða hvað þýðir til dæmis Albion í West Bromwich Albion, eða Hotspur í Tottenham Hotspur. Víðsjá er með svörin: Albion er eldfornt og skáldlegt heiti yfir England sjálft, og Hotspur þýðir ofurhugi. Raunar var það upphaflegt heiti klúbbsins frá Tottenham, hann var stofnaður árið 1882 sem Hotspur F.C.

 

Crystal Palace kveikir sögu

En af hverju er ég annars að telja þetta allt upp? Nú, það er eins og áður segir til þess að svala orðsifjaþörfinni sem blundar í okkur öllum, en ég get líka komið með konkret dæmi um það hvernig hversdagsleg knattspyrnuheiti geta kveikt nýja heima.

Höfundur er nefndur Sanna Tahvanainen, hún er sænskumælandi Finni, og var nýverið tilnefnd til Barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs, þessi sem Arnar Már Arngrímsson hreppti svo fyrir Sölvasögu unglings. Nema hvað, Sanna skrifar margt fleira en barnabækur, bæði ljóð og skáldsögur. Einn daginn var hún að hlusta á þusið í eiginmanni sínum, Kjell, sem fylgist grannt með ensku knattspyrnunni, en á henni hefur Sanna engan áhuga. Og allt í einu sagði hann nokkuð sem vakti áhuga Sönnu – hann minntist á liðið Crystal Palace. „Fyrirgefðu, Kjell, hvað sagðirðu, Crystal Palace?“ „Já, ég sagði Crystal Palace.“ „Ji, en fallegt,“ hrópaði Sanna upp yfir sig, uppnumin, og sá fyrir sér kristalshöll, sem var sannarlega ekki fjarri lagi, því knattspyrnuliðið Crystal Palace í London var stofnað í höllinni þar sem heimssýningin mikla var haldin árið 1851, gríðarmikilli höll úr járni og gleri sem var eitt af gæluverkefnum Prins Alberts, eiginmanns Viktoríu drottningar.

Að öllu þessu komst Sanna Tahvanainen þegar hún fór að fletta upp heimildum um Crystal Palace; hún kynntist Alberti prins, sem hún hafði sama og aldrei heyrt um, og ekki síst Viktoríu drottningu, og rannsóknarleiðangurinn endaði með því að hún skrifaði skáldsöguna Bär den som en krona (Wear It Like a Crown/Þú skalt bera það eins og kórónu) sem fjallar um líf Viktoríu drottningar sem stúlkubarn, eiginkona og síðar ekkja. Bókin kom út árið 2013 og fékk fína dóma, og það er óneitanlega gaman að vita að kveikjan að henni hafi verið upptalning á úrslitum í ensku úrvalsdeildinni.

Þess má geta að Sanna – og þetta veit ég því ég hitti hana um daginn og hún sagði mér þetta með miklum tilþrifum – var hætt að geta sofið undir lok vinnslutíma bókarinnar, því hún vaknaði í tíma og ótíma og fannst hún vera að kafna. Skýringin var sú að undirhökurnar sem Viktoría drottning safnaði á efri árum eltu Sönnu inn í draumana, henni fannst hún vera að kafna í eigin undirhökum, sem voru ekkert nema ímyndun.

 

Breiðablik, heima hjá Baldri

Nú, þetta var sagan af Crystal Palace. Hægt væri að taka ýmis fleiri dæmi um það hvernig höfundar leyfa öðrum menningarfyrirbærum að innspírera bækur sínar. Nærtækt dæmi er hinn ástsæli, íslenski glæpasagnahöfundur Árni Þórarinsson, sem hefur nefnt margar af bókum sínum eftir erlendum dægurlögum – nægir þar að nefna White Rabbit, Blue Moon, Death of a Clown, Year of the Cat og nú síðast Þrettán dagar, sem hlýtur að vera lagið Thirteen Days með J.J. Cale. Ég held að það sé að mestu hætt að minnast á þetta í viðtölum við Árna, þetta er nokkuð sem liggur fyrir, og það verður að segjast að út úr þessu koma hinir fínustu bókatitlar, Blátt tungl, Dauði trúðsins, Ár kattarins, Hvíta kanínan.

Og hvað er svo að segja um íslensk íþróttalið? Jú, þegar til dæmis Breiðablik og Fjölnir mætast í efstu deild Íslandsmótsins, þá er Óðinn í raun að ganga inn í bústað Baldurs, í goðheimum, gott ef ekki með galdrastaf á lofti. Breiðablik var jú aðsetur Baldurs, sem var líknsamastur ása, og Fjölnir er Óðinsheiti, en getur líka merkt galdrastafur. Þarna koma bókmenntirnar beinlínis fljúgandi í andlitið á manni, beint af knattspyrnuvellinum, þannig að orðsifjaleikgleðin getur vel virkað í báðar áttir.

En svo kemur í ljós að viðureignin er í Pepsi-deild, og þá fellur allt skyndilega hversdagslega flatt. Pepsi Cola er nefnilega nefnt eftir meltingarensíminu pepsín.“