Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ofursvart, leður, hárkollur og barokk

Mynd: Ólöf Jakobína Ernudóttir / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Ofursvart, leður, hárkollur og barokk

18.09.2017 - 17:20

Höfundar

Myndlistarkonurnar Kristín Gunnlaugsdóttir og Margrét Jónsdóttir hafa sett upp tvær einkasýningar undir einni hugmynd á Norður-Atlantshafsbryggju í Kaupmannahöfn. Yfirskriftin er Super Black, Ofur-svart, en tengingarnar ná aftur til barokktímans og inn í kvenlíkamann. Kristín Gunnlaugsdóttir var gestur í Víðsjá.

Myrk veröld

„Þetta eru í raun tvær einkasýningar sem hverfast um sama fyrirbæri, það ofur-svarta. Margrét vinnur með svartan leir og ég byggi mína sýningu á nýjum stórum olíumálverkum sem öll hafa svartan bakgrunn. “

Árið 2014 héldu þær Kristín og Margrét saman sýningu í Nesstofu á Seltjarnarnesi. „Þar myndast tengslin við söguna því að bæði húsin, Nesstofa og Nordbryggen í Kaupmannahöfn eru tekin í notkun um 1770. Mér fannst áhugavert að velta fyrir mér skortinum á barokki á Íslandi. Þessi ár upplifir maður sem þvílíkt harðæra- og erfiðleikatímabil í Íslandssögunni og sjálf elska ég ofgnóttina og ýkjurnar í barokinu í Evrópu,“ segir Kristín sem finnur ákveðin samhljóm með þessum árum og samtíma okkkar. „Núna, eins og þarna rétt fyrir frönsku byltinguna, er fólk að gera upp við sig stórar grundvallar spurningar um samfélag og náttúru.“

Mynd með færslu
 Mynd: Margrét Jónsdóttir
Margrét Jónsdóttir vinnur með svartan leir á sýningunni í Kaupmannahöfn.

Tengsl manns og náttúru

Kristín segir að í keramíkverkum sínum sé Margét Jónsdóttir að velta fyrir sér tengslum manns og náttúru. „Hún veltir fyrir sér muninum á því hvernig við förum með náttúruna og hvernig við förum með líkama okkar. Verk hennar eru einhvers konar líffæri, líffæra-innsetningar, á gólfi. Þar er blandað saman nytjahlutum og hreinum abstrakt-formum,“ segir Kristín.

„Ég tek svarta myrkið sem útgangspunkt sem bæði er endalok og upphaf. Það minnir bæði á lífið í móðurkviði og alheiminn.“ Út úr þessu myrkri birtast síðan litríkar persónur og Kristín segir baroktenginguna bjóða upp á mikið stuð. „Þetta er ýkt og litríkt. Þarna eru ýktar hárkollur og smá leðurlykt í loftinu. Þannig að það er líka í þessu eitthvað „rock and roll.“ Ég hefði helst viljað fá einhver svona lögleg mótorhjólasamtök á sýninguna.“

Kannski verður henni að ósk sinni, en sýningin stendur fram í byrjun desember.