Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Oft erfitt að mynda stjórn án Framsóknar

Mynd: RUV / RUV
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, er sáttur við gengi flokksins eftir fyrstu tölur. Hann segir að Framsóknarflokkur sé límið í íslenskum stjórnmálum og það gæti orðið erfitt að mynda stjórn án hans.

Framsóknarflokkurinn mælist með tæplega níu prósenta fylgi eftir að fyrstu tölur hafa borist úr öllum kjördæmum. Flokkurinn fengi sex þingsæti samkvæmt þessu og tapar tveimur mönnum frá því í síðustu kosningum. Sigurður Ingi sagði að það hefði verið á brattann að sækja í kosningabaráttunni því flokkurinn hafi mælst með rúmlega fimm prósenta fylgi í skoðanakönnunum. Flokkurinn hefði keppt við félaga sína í Miðflokknum og sótt á sömu mið en engu að síður tekist að tvöfalda fylgi sitt á síðustu viku. „Eins og staðan er núna getum við verið gríðarlega stolt af þessum varnarsigri sem við höfum náð,“ sagði Sigurður Ingi við stuðningsmenn sína á Hótel sögu í kvöld. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV