Ofsaakstur á Reykjanesbraut

13.05.2018 - 08:04
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Þrír ökumenn voru stöðvaðir fyrir ofsaakstur á Reykjanesbraut við Kópavog í gærkvöldi og nótt.

 

Tveir voru mældir á 148 km. hraða á klukkustund klukkan tvö í nótt þar sem hámarkshraðinn er 80 km/klst. Grunur leikur á að ökumennirnir hafi verið í spyrnukeppni. Þeir játuðu báðir sök og geta búist við að fá 230.000 króna sekt hvor og verða sviptir ökuréttindum í tvo mánuði. Þriðji ökuþórinn var stöðvaður fyrr í gærkvöld á 136 kílómetra hraða. Hann var bæði próflaus og undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Þá reyndi ökumaður að stinga lögreglu af eftir að hafa ekið gegn rauðu ljósi á Suðurlandsbraut klukkan þrjú í nótt. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum en eftir stutta og snarpa eftirför lét hann staðar numið. Ökumaðurinn, sem var allsgáður, verður kærður fyrir nokkur lögbrot. Þar á meðal að stofna lífi annarra í háska. Farþegi í bifreiðinni þurfti á sálrænni aðstoð lögreglunnar að halda eftir bílferðina, að því er segir í skeyti frá lögreglunni. 

 

Björn Friðrik Brynjólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi