Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ofbeldismálum tengdum eyfirskum börnum fjölgar

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Barnaverndarmálum á Akureyri og nágrenni hennar hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Mest hefur tilkynningum frá lögreglu fjölgað, en einnig alvarlegum málum eins og kynferðisbrota- og vanrækslumálum. Unglingapartý eru þó nánast úr sögunni, samkvæmt forstöðumanni barnaverndar, sem undirstrikar að ofbeldi gegn börnum geti haft gífurlega alvarlegar afleiðingar. Fyrir fjórum árum voru tilkynningarnar tæplega 350 en árið 2016 er gert ráð fyrir að þær verði um 500, sem gerir fjölgun um 45 prósent.

Alvarlegum málum hefur líka fjölgað

Áskell Örn Kára­son, for­stöðumaður barna­vernd­ar Eyjafjarðar, sem þjónustar Eyjafjarðarsveit, Akureyrarbæ, Grýtubakkahrepp, Svalbarðsströnd og Hörgársveit, segir að þó að tilkynningafjöldi sé oft sveiflukenndur milli ára, sé fjölgunin undanfarið greinileg. Það sé þó erfitt að segja til um ástæðurnar sem liggi þar að baki.

„Alvarlegum málum hefur líka fjölgað. Það eru mál þar sem einhvers konar þvingunarúrræðum er beitt og lagt til að börn séu úrskurðuð í tímabundna vistun á annað heimili. Það er fyrst og fremst vegna upplýsinga sem okkur berast um vanrækslu barnanna sem ekki hefur tekist að bæta úr,” segir Áskell. „Það á ekki að grípa til íþyngjandi aðgerða ef talið er að vægari leiðir séu ekki fullreyndar. Það geta verið mál þar sem er bara almennt miklar áhyggjur af aðbúnaði barnanna og samvinna við foreldra er stopul.” Þó séu algjörar forræðissviptingar enn svo fáar að það sé ekki tölfræðilega marktækt að skoða fjölgun milli ára. Þær eru frá engri og upp í svona tvær á ári.

„Í samböndum við fullorðna eru börnin minni máttar.  Þau eru því í hættu að verða fyrir tvöföldu álagi, ofbeldi með kúgun af hálfu nákomins aðila sem þau eru háð og treysta á, sem þau gjarnan vænta góðs af. Það er þá sama höndin sem strýkur blíðlega um vanga og gefur kinnhest sem svíður undan,” segir Áskell.  

Drengir oftar beittir líkamlegum refsingum

Hann vitnar í rannsókn sem Geir Gunnlaugsson, þáverandi landlæknir, og Jónína Einarsdóttir mannfræðingur gerðu fyrir nokkrum árum á ofbeldi og líkamlegum refsingum á Íslandi.

Úr þeirri rannsókn megi meðal annars sjá að ofbeldi er algengast þegar fjölskyldur búa við streituvekjandi aðstæður eins og fátækt, áföll og félagslegar þrengingar.

„Þá eru drengir oftar beittir líkamlegum refsingum en stúlkur, en bæði mæður og feður beita börn ofbeldi. Feðurnir beita frekar líkamlegu ofbeldi og mæðurnar frekar andlegu,” segir hann. „Eldri börn eru fremur beitt ofbeldi af feðrum sínum en yngri börn af mæðrum sínum og þær eru einnig líklegri til að beita stjúpbörn ofbeldi en eigin börn. Þar sem ofbeldi á sér stað milli foreldra barna eru meiri líkur á að börnin sjálf verði beitt ofbeldi.”

Alvarlegar afleiðingar ofbeldis

Áskell segir að börn sem verða fyrir ofbeldi geti þróað með sér árásarhegðun, enda sé sköpuð slæm fyrirmynd fyrir þau í samskiptum. Aðrar afleiðingar eru slök tilfinningastjórnun, truflun í félagsþroska, kvíði, höfuðverkir og magaverkir, sem og hegðunarvandi og afbrotahegðun.

„Heimilisofbeldi, þegar annað foreldrið beitir hitt ofbeldi, varðar einnig barnaverndarlög og er skráð hjá barnavernd sem tilfinningalegt ofbeldi gegn barni,” segir hann. „Það er þolandi ofbeldis við þessi skilyrði og jafnvel þótt það hafi ekki verið viðstatt þegar ofbeldið átti sér stað.  Ástæðan fyrir þessu er að sjálfsögðu sú að slíkar aðstæður fela í sér hættu fyrir þroska barnsins og sálarheill. Þannig eru sjónarmið barnaverndar og jafnréttis nátengd þegar kemur að heimilisofbeldi.”

„Gömlu, góðu” unglingapartýin nánast úr sögunni

Öll afskipti lögreglu af börnum og fólki sem er skráð með börn á sínu heimili, eru tilkynnt til barnaverndar. Málin varða ekki alltaf barnaverndarlög.

„Ef lögregla tekur ölvaðan ungling niðri í bæ og fer með hann heim til sín, þá er það tilkynnt,” segir Áskell. „Það er skylda lögreglunnar og hún hefur sinnt henni vel undanfarin ár.” Mál eru einnig tilkynnt þegar lögregla er kölluð til í heimahús vegna átaka. Spurður hvort barnavernd fái þá eina tilkynningu á hvert barn ef lögregla stöðvar unglingapartý svarar Áskell:

„Unglingapartýin, þessi „gömlu góðu” heyra nú sem betur fer nánast sögunni til. Partý þar sem foreldrar eru í burtu og örfáum krökkum er boðið í partý þar sem mæta svo 30 eða 40. Það sjáum við varla lengur,” segir Áskell.

Börnin að verða yngri

Varðandi aldurssamsetningu barnanna sem tilkynnt er vegna, segir Áskell að þróunin hafi verið sú að aldur þeirra fari lækkandi, þó að kippur hafi komið í unglingamálin. Um sé að ræða þrjá meginaldurshópa.

„Þegar um kornabörn er að ræða þá snúast málin yfirleitt um hæfni eða vanhæfni foreldra og aðstæður. Vanræksla, foreldrar í vanda og oft eru mæðurnar einar sem koma við sögu, bág félagsleg staða og neysla áfengis- og vímuefna. Hjá börnum á grunnskólaaldri eru ýmiss konar mál sem tilkynnt er um, ofbeldi í sumum tilvikum. Síðan eru það unglingarnir, og þau mál snúa mest að áhættuhegðun, sem þýðir að unglingurinn er með sínum lifnaðarháttum talinn vera að stofna þroska sínum í hættu. Einnig koma ofbeldistilkynningar, bæði þar sem unglingar eru gerendur og þolendur.

Afhjúpun um Karl Vigni hafði mikil áhrif

Áskell segir að tilkynningum vegna kynferðisbrota gegn börnum hafi einnig verið að fjölga. Það hafi komið mikil uppsveifla hér, eins og annars staðar á landinu, þegar afhjúpun Kastljóss um kynferðisbrot Karls Vignis Þorsteinssonar litu dagsins ljós í byrjun árs 2013.

„Það hefur ekki komið upp annað eins mál sem hefur vakið svona mikla athygli og haft jafn mikil áhrif,” segir hann. Stundum komi einnig upp mál þar sem börn eru gerendur í kynferðisbrotamálum, en það er ekki eins algengt, þau séu langoftast þolendur.  

Óæskilegar tafir vegna álags

Fjölgun tilkynninga eykur eðli málsins samkvæmt álag á barnaverndarnefnd. Áskell segir mjög snúið að ná yfir allt saman.

„Það verða tafir sem ekki eru æskilegar,” segir hann. „Það tekur tíma að ná í gögn og fólk þarf að bíða lengur en það ætti að gera. Snerpa í vinnslu mála verður minni. Og það er forgangsröðun í þessum málum, eftir alvarleika,” segir hann. „Við höfum minnt á að barnavernd er ekki eini aðilinn í samfélaginu sem á að bera hag barnanna fyrir brjósti. Aðrir opinberir aðilar, eins og skólar, heilbrigðisstofnanir og svo ekki sé talað um forsjáraðilana sjálfa, verða að koma að borðinu.”

 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV