
Ófærð víða um land og vegum lokað
Frétt uppfærð klukkan 09:40: Búið er að opna Hellisheiði.
Á Vesturlandi er Fróðárheiði lokuð og þungfært er á Vatnaleið og ófært við Hafursfell. Þæfingsfærð er í Kolgrafafirði. Þungfært er á Bröttubrekku og þæfingsfærð í Borgarfirði.
Á Vestfjörðum er ófært á Klettshálsi og þungfært og skafrenningur á Kleifaheiði. Þungfært og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og á Strandarvegi. Ófært er á Þröskuldum. Þæfingsfærð er á Innstrandarvegi og í Ísafjarðardjúpi. Mögulegt er að snjóflóðahætta verði á Flateyrarvegi.
Á Norðurlandi er þæfingsfærð og snjókoma á Öxnadalsheiði og á Grenivíkurvegi. Ófært er í Héðinsfirði, á Siglufjarðarvegi og í Víkurskarði. Líkur eru á snjóflóðahættu í Ólafsfjarðarmúla í dag.
Á Norðausturlandi er ófært í Ljósavatnsskarði, Tjörnesi, Hófaskarði og Hálsum og beðið er með mokstur á þessum leiðum. Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og verða aðstæður kannaðar um hádegi.
Á Austurlandi er þæfingsfærð á Fjarðarheiði.
Hægt er að fylgjast með færð á vegum á vef Vegagerðarinnar.
Í dag gengur á með norðan- og norðaustan hríðarveðri víða um land, en léttir þó fljótlega til fyrir sunnan. Á morgun dregur heldur úr vindi og úrkomu vestanlands, en áfram verður norðanhvassviðri með ofankomu og skafrenningi fyrir austan. Frost víða 0 til 5 stig, en yfirleitt frostlaust með suður- og austurströndinni.
Fréttin var uppfærð klukkan 08:51: Fyrirsögn var breytt og nýjustu upplýsingar um færðar inn í fréttina.