Of mikið álag á fáa dýralækna

08.01.2020 - 13:33
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir. - Mynd:  / 
„Þar sem áður störfuðu 18 dýralæknar eru nú aðeins tíu. Það er orðið svo gisið þetta net,“ segir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir. Það hafi berlega komið í ljós í óveðrinu í desember og undanfarna daga. Sigurborg var á dögunum sæmd Fálkaorðu fyrir framlag til velferðar og sjúkdómavarna dýra.

„Við erum í mjög góðum málum með löggjöfina, miklar breytingar urðu í kjölfar nýrra dýraverndunarlaga 2014,“ segir Sigurborg í Morgunútvarpinu. Hún segir að nú séu aðeins ein lög um velferð dýra en áður hafi þau verið tvenn, tvö ráðuneyti og stofnanir séð um málefni dýra auk sveitarfélaga. „Þetta var tætt og ófókuserað. En núna eru þetta ein lög á einum stað og virkilega skilvirk lög.“ En hins vegar hefur hún verulegar áhyggjur af því hvernig eftirlitskerfið hefur breyst síðustu 30 ár. Þegar Sigurborg útskrifaðist var landinu skipt í 31 hérað og í hverju átti að vera dýralæknir, þó aldrei hafi reyndar tekist að manna fleiri en 27. Héraðsdýralæknar áttu þá bæði að sjá um að lækna dýr auk þess að sinna eftirlitsskyldu. Nú hefur þetta verið aðskilið og sex héraðsdýralæknar eru á landinu en þeir sinna eingöngu eftirliti með heilsu og velferð dýra, og afurðum.

„Þessi 27 svæði sem voru skipuð dýralæknum, níu voru í þéttbýli, sem er Reykjavíkursvæðið, Suðurland, Eyjafjörður og Skagafjörður. Út af standa þá 18 og ríkið ákvað að styðja hinar dreifðu byggðir landsins með því að styðja 10 svæði. Þannig að þar sem áður störfuðu 18 dýralæknar eru nú aðeins tíu.“ Að mati Sigurborgar er netið allt of gisið og gallinn við það komi fram þegar brestur á með brjáluðu veðri eins í desember. „Lög um velferð dýra krefja eigendur um að sækja dýrum sínum læknishjálp og samfélagið verður þá að gera þeim kleift að uppfylla þá skyldu. Kerfið hefur versnað að þessu leyti.“ Sigurborg tekur sem dæmi að í storminum í desember hafi Norðurland vestra orðið illa úti og gríðarlegt álag var á dýralækninum á Hvammstanga. „Hann er að sinna báðum Húnavatnssýslunum og vaktsvæðið er frá vestanverðum Hrútafirði og nær upp í Siglufjörð! Þetta er bara ekki hægt yfir vetrartímann. Þannig við brugðum á það ráð í gær að skipta þessu svæði upp. Það verður að hugsa um peningamálin seinna hvernig við fjármögnum það. Það verður að fara að hugsa þessi mál upp á nýtt, ef við höfðum efni á þessu fyrir 35 árum, af hverju ekki núna?“

Hestar úti í óveðri
 Mynd: Fréttir

Heilmikil umræða skapaðist eftir að meira en 100 hross fórust í sprengilægðinni í desember. Á Íslandi er hefð fyrir því að hross gangi úti allt árið og líklega eru þau um 50.000. „Fóðrið er samt mikill hitagjafi. Þannig þegar það er von á vondum veðrum er mikilvægt að það sé vel gefið þannig þau hafi orkuna í að standa af sér kulda og vonskuveður.“ Það sem gerist í óveðrinu í desember hafi þó verið algjört einsdæmi. „Elstu menn muna ekki annað eins. Það er mikill vindstyrkur og bleyta við frostmark. Þegar bleytan kemur á hrossin frýs hún við og hleðst meira og meira á þau. Þannig þyngslin verða mikil og mörg standa það ekki af sér. Það eru yngri og eldri hrossin sem fóru verr út úr þessu.“

Fyrir utan ofsaaðstæður eins og þarna urðu líði þó útigangandi hestum vel, betur en þeim sem geymdir séu inni. „Þar erum við auðvitað að tala um útigang hrossa sem ekki eru í brúkun. Þau hross sem eru í brúkun verður að hýsa, því þau náttúrulega svitna og ekki hægt að halda þau úti. En íslenski hesturinn er búinn að aðlagast núttúrunni það vel að hann stendur venjulegan vetur vel af sér. Hann fitar sig á haustin og þarf að vera það fyrir veturinn. En það koma svona undantekningaveður – og kannski fer þeim fjölgandi, þá þurfum við kannski að endurskoða kerfið.“