Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Of gamall fyrir aðstoð

04.10.2016 - 19:00
Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja fötluðum manni um liðveislu vegna aldurs. Borgin þarf að taka málið til meðferðar að nýju. Maðurinn hefur ekkert heyrt frá borgaryfirvöldum, þótt meira en hálfur mánuður sé síðan úrskurðurinn var kveðinn upp.

Friðgeir Jóhannesson, varð blindur og missti 60 - 70 prósent af heyrninni þegar beltagrafa keyrði yfir hann. Slysið varð þegar hann var að vinna við borun og sprengingar í Smáralind þegar hún var í byggingu. Grafan var að byrgja sprengju og Friðgeir að draga vírinn. 
 
„Og þegar hún bakkar þá bakkar hún yfir mig og ég lenti undir vélinni og dó allt of lengi bara þess vegna er ég blindur eiginlega súrefnisskortur í heila."

Þetta gerðist í desember 1998 þegar hann var 51 árs. Hann var fyrsta árið nánast rúmliggjandi. Eftir það hefur hann verið virkur í félagsstarfi, setið í stjórn félags daufblindra, stjórn blindrafélagsins, verið fulltrúi hjá Öryrkjabandalaginu o.fl
 
„Þegar maður þekkir ekki svæði sem maður er að fara á þá kemst maður eiginlega ekki um. Maður verður eignlega að þekkja svæðið til þess að maður geti gert eitthvað sjálfur svo ég sótti um liðveislu til þess að ég gæti haldið áfram þessum störfum sem ég hef verið í."

„Og ég bara þurfti á því að halda að fá meiri hjálp. Maður var að láta leigubílstjórana hlaupa með sér þarna inn og út og suður eins og maður segir sem að er náttúrlega ekki þeirra verk."

Kona Friðgeirs hefur hjálpað honum mikið. „En nú er hún orðin bara mikill sjúklingur sjálf hún er hætt að vinna út af því að hún er með svokallaða slit og liðagigt og hún er bara ekki orðin nein manneskja í að fylgja mér."

Friðgeir sótti um liðveislu snemma árs 2015 en var hafnað fyrst á þeim forsendum að liðveisla væri til að taka af félagslega einangrun. Hann kærði niðurstöðuna. 

„Og þá fékk ég að heyra ég væri orðinn of gamall.  Ég væri orðinn 67 ára og þar af leiðandi ætti ég ekki rétt á liðveislu."

Hann kærði aftur og fyrir rúmlega hálfum mánuði felldi úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar úr gildi og var borginni falið að taka málið til meðferðar að nýju

„Og hvað hefur gerst síðan? Ekki neitt, ekki heyrt hósta né stunu síðan."
 
„Það bara hvarflaði ekki að mér að þetta tæki eitt og hálft ár að fá jákvæðu niðurstöðuna.  Þetta er í stjórnarskrá Íslands þú mátt ekki mismuna fólki eftir aldri."