Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óeirðir í Indónesíu vegna kosningaúrslita

22.05.2019 - 05:53
epa07590670 An Indonesian protester shouts slogans at officers during a protest following the announcement of the presidential election results outside the Election Supervisory Board (Bawaslu) building in Jakarta, Indonesia, 22 May 2019. Incumbent Indonesian President, Joko Widodo was re-elected after winning the presidential election over his rival, retired General Prabowo Subianto, the election commission announced on 21 May 2019.  EPA-EFE/MAST IRHAM
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sex eru látnir og yfir 200 slasaðir í Jakarta eftir átök stuðningsmanna andstæðra fylkinga forsetakosninganna í Indónesíu eftir að úrslit urðu ljós í gærkvöld. Úrslitanna hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu síðan kosningunum lauk í apríl, en í gær varð loks ljóst að Joko Widodo hafði náð endurkjöri með 55,5 prósentum greiddra atkvæða.

Andstæðingur hans, fyrrverandi sérsveitarherforinginn Prabowo Subianto, hefur neitað að samþykkja úrslitin og sakar yfirvöld um stórfellt kosningasvindl. Stuðningsmenn hans flugust á við öryggissveitir og kveiktu í lögreglustöðvum og bílum í Jakarta í gærkvöld eftir að úrslitin urðu ljós. Guardian hefur eftir lögreglu að 20 hafi verið handteknir. Dedi Prasetyo, talsmaður ríkislögreglu Indónesíu, segir skotvopn lögreglunnar ekki hafa verið hlaðin með byssuskotum, en lögregla notaði táragas og öflugar vatnsbyssur gegn mótmælendum. Múgurinn kastaði grjóti að lögreglu og öryggissveitum, mólótov kokteilum og brennandi hlutum.

30 þúsund hermenn hafa verið kallaðir til að aðstoða lögreglu í Jakarta vegna fyrirhugaðra mótmæla. Stuðningsmenn Prabowo sögðu þegar í gær að þeir ætli að láta dómstóla skera úr um réttmæti kosninganna, sem Prabowo gerði einnig árið 2014 þegar hann tapaði forsetakosningunum. Stuðningsmenn hans komu sér fyrir við byggingu kosningastjórnar í morgun.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV