Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Óeirðir á götum Belfast

12.07.2011 - 08:02
Til alvarlegra átaka kom á götum Belfast á Norður-Írlandi í nótt.

Sjö lögreglumenn eru slasaðir eftir að lögregla reyndi að róa átök milli mótmælenda og kaþólskra þegar upp úr sauð, en í dag fer fram árleg ganga Óraníumanna.
Talsverðar óeirðir brutust út fyrir tveimur vikum síðan, þegar nokkurs konar æfing var tekin fyrir gönguna, og hefur andrúmsloftið í Belfast verið lævi blandið eftir það. Í gær hófu mótmælendur að kveikja í brennum í borginni, til að fagna göngudeginum. Það var nóg til að kaþólskir misstu þolinmæðina og upphófust götuóeirðir í vesturhluta borgarinnar. Átök í Belfast í kringum 12. júlí eru nánast árlegur viðburður, en þann dag ganga meðlimir Óraníureglunnar fylktu liði um borgina til að minnast bardagans við Boyne, þegar konungur mótmælenda sigraði síðasta kaþólska konunginn. Frá því árið 1998 hefur þó verið friðsamlegra um að litast á Norður-Írlandi og minni átök í kringum göngu Óraníumanna. Friðurinn hefur þó verið brothættur síðasta árið, eftir að sprengjutilræði hófust gegn írskum lögreglumönnum. Óeirðirnar fyrir tveimur vikum voru þær verstu í borginni í áratug en atburðir næturinnar nálægt því jafnslæmir. Þá er búist við enn meiri átökum í Belfast í dag þegar gangan fer af stað.