Óeining um sameiningarmöguleika

15.06.2017 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps á Snæfellsnesi hefur ákveðið að fá Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi til að gera samantekt á því hvaða sameiningarkostir eru í stöðunni fyrir sveitarfélagið. Hreppsnefnd hafnar því að taka þátt í greiningarvinnu sveitarfélaga á norðanverðu Snæfellsnesi sem skoða kosti sameiningar en meirihluti kosningarbærra íbúa sveitarfélagsins skrifaði undir áskorun þess efnis.

Skoruðu á hreppsnefnd

47 kosningabærir íbúar undirrituðu áskorun til hreppsnefndar um að taka þátt í greiningarvinnu á sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga á norðanverðu Snæfellsnesi, Stykkishólmsbæjar, Helgafellssveitar og Grundarfjarðar en hreppsnefnd hafði áður hafnað því að taka þátt í sameiningarviðræðunum þar sem Snæfellsbær væri ekki hluti af þeim.

Vilja skoða fleiri kosti á sameiningu

Borgarafundur var um síðustu helgi að ósk íbúa og í gær greiddi hreppsnefnd atkvæði um hvort taka ætti þátt í greiningarvinnu sveitarfélaganna þriggja, eins og áskorunin kveður á um, og var því hafnað. Eggert Kjartansson, oddviti, bókaði á fundinum að sveitarfélagið hafi fjóra möguleika; vera áfram sjálfstætt sveitarfélag, taka þátt í samtali við sveitarfélögin þrjú á norðanverðu Snæfellsnesi, eða að skoða sameiningu með Borgarbyggð eða Snæfellsbæ. Oddviti leggur til að Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi geri samantekt um hvaða snertifleti og tengingar Eyja- og Miklaholtshreppur á við önnur sveitarfélög. Þrír samþykktu tillögu oddvita og tveir sátu hjá.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi