Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Óeðlileg tengsl við Kaupfélag Skagfirðinga

Mynd með færslu
 Mynd:
Rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð fjallar talsvert um tengsl sjóðsins við KS, Kaupfélag Skagfirðinga, en sjóðurinn er meðal annars með starfsaðstöðu í húsnæði Kaupfélagsins á Sauðárkróki. Viðskipti við Fjárvaka, dótturfélag KS, eru tekin fyrir í skýrslu nefndarinnar.

Árið 1999 var haldið útboð á innheimtu og tengdri þjónustu fyrir Íbúðalánasjóð. Nefndin telur að útboðið hafi verið illa ígrundað. Fjárvaki átti lægsta tilboð en þegar á hólminn var komið gat félagið ekki staðið við gerða samninga, meðal annars vegna þess að viðskiptahugbúnaður félagsins stóðst aldrei kröfur. Samningnum var því rift í byrjun árs 2002.

Þrátt fyrir vanefndir á samningi fékk Fjárvaki greidda sambærilega upphæð og félagið hefði fengið ef staðið hefði verið við samninga. Sama dag skrifaði Íbúðalánasjóður undir tvo samninga við Sparisjóð Hólahrepps í Skagafirði, en Fjárvaki og lykilstjórnendur KS höfðu nýlega keypt stofnfjárbréf í sjóðnum og þannig komist til áhrifa innan hans. Sparisjóðurinn var örlítill, með 0,3 stöðugildi, en var í samstarfi við Fjárvaka.

Fyrri samningurinn snerist um að sparisjóðurinn myndi áfram veita íbúðalánasjóði innheimtuþjónustu. Rannsóknarnefndin telur að þetta hafi verið í besta falli óeðlilegt því þjónustuna hefði átt að bjóða út. Hinn samningurinn snerist um að sparisjóðurinn vistaði 300 milljóna króna öryggissjóð Íbúðalánasjóðs. Þetta var eini slíki samningurinn sem Íbúðalánasjóður gerði. Rannsóknarnefndin telur að samningurinn hafi ekki verið gerður með hagsmuni Íbúðalánasjóðs í huga.

Sama dag og þessir samingar voru gerðir samþykkti Íbúðalánasjóður reikning frá sparisjóðnum upp á rúmar 16 milljónir króna, sem enduðu á reikningi Fjárvaka. Einn af forsvarsmönnum Fjárvaka undirritaði samninginn fyrir hönd sparisjóðsins þótt hann hafi hvorki verið stjórnarmaður né prókúruhafi í sjóðnum. Þá tiltekur nefndin sérstaklega að Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri og áhrifamaður innan Framsóknarflokksins hafi sóst nokkuð fast eftir því að verða stjórnarformaður Íbúðalánsjóðs árið 2006, en ekki fengið.