Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ódýrir brandarar og úrelt efni

Mynd: Borgarleikhus.is / Borgarleikhus.is

Ódýrir brandarar og úrelt efni

07.03.2017 - 14:27

Höfundar

Leikhúsrýnir Víðsjár telur sýninguna Úti að aka hafa verið setta upp af fagmennsku á stóra sviði Borgarleikhússins og leikurinn í henni sé afar góður. Hins vegar setur hún stórt spurningarmerki við verkið sjálft sem hún telur passa illa inn í samtímann og uppfullt af ódýrum bröndurum á kostnað kvenna og minnihlutahópa. Það sé nauðsynlegt „að gera greinarmun á því sem er fyndið og síðan því sem einfaldlega má henda í ruslið með stimplinum úrelt efni.“

Guðrún Baldvinsdóttir skrifar:

Á laugardaginn síðasta var farsinn Úti að aka eftir Ray Cooney frumsýndur á stóra sviði Borgarleikhússins. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem íslenskir áhorfendur fá að sjá verk eftir Cooney en hann samdi einnig Viltu finna milljón, Nei, ráðherra! og Beint í æð! Þessir farsar nutu mikilla vinsælda hér á landi og líkur eru á að Úti að aka verði einnig vinsæl, enda hefur sýningin verið vel auglýst og stjörnulið fer þar með hlutverk. Gísli Rúnar Jónsson þýddi verkið og staðfærði yfir í íslenskan veruleika og Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri og fyrrum Borgarleikhússtjóri, leikstýrir sýningunni.

Leigubílstjóri í lygavef

Í verkinu fylgjumst við með hinum tvíkvænta leigubílsstjóra Jóni Jónssyni. Jón þessi á eina fjölskyldu í Mosfellsbænum, konuna Helgu og soninn Gunnar og aðra fjölskyldu í Hafnarfirði, konuna Guðrúnu og dótturina Sísí. Svona hefur Jón, leikinn af Hilmi Snæ Guðnasyni, lifað í 18 ár en þegar börnin tvö kynnast á netinu er þessu fyrirkomulagi stefnt i hættu og Jón neyðist til þess að flækja enn frekar þann lygavef sem hann hefur ofið.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhus.is
Halldór Gylfason í hlutverki nágrannans sem reynir að hylma yfir með Jóni.

Þegar börnin ákveða að hittast fær Jón Steingrím nágranna sinn til þess að hylma yfir með sér og ljúga að konunum og börnum. Unglingarnir tveir, leikin af Elmu Stefaníu Ágústsdóttur og og Hilmari Guðjónssyni, eru staðráðin í að hittast, enda hafa þau fellt hugi saman. Jón sér að  það að það getur skiljanlega aldrei orðið og reynir hann allt hvað hann getur til þess að stöðva unglingana. Eiginkonurnar tvær, leiknar af Ilmi Kristjánsdóttur og Halldóru Geirharðsdóttur, eru grunlausar um hagi eiginmans síns en Steingrímur fær það hlutverk að plata þær, fyrst og fremst í gegnum síma.

Sviðið nýtt á skemmtilegan hátt

Leiksviðið sýnir áhorfendum tvær íbúðir í einu rými með tveimur dyrum á hvorri hlið og síðan tveimur útidyrahurðum sem aðgreina íbúðirnar tvær. Leikararnir eru staðsettir í íbúðunum tveimur á sama tíma án þess að taka eftir þeim sem eiga að vera staddir í hinni íbúðinni. Með þessu er sviðið nýtt á skemmtilegan hátt en leikmyndin og búningar eru unnin af Snorra Frey Hilmarssyni.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhus.is
Leikhúsrýnir Víðsjár segir Ilmi Kristjánsdóttur og Halldóru Geirharðs standa sig vel þrátt fyrir að þær fá ekki úr miklu að moða.

Farsinn er vandmeðfarið listform sem byggist á hárnákvæmum tímasetningum, hröðu tempói og góðri fléttu sem byggist yfirleitt alltaf á misskilningi sem er viðhaldið í gegnum sýninguna. Magnús Geir leikstjóri sýningarinnar vinnur vel með farsaformið með slíkt, þó að tempóið hafa mögulega farið fram úr leikurunum sjálfum. Hilmir Snær er mjög ýktur í hlutverki sínu, og þarf líklegast að vera það, en maður verður fljótt þreyttur á að hafa hann á sviðinu.

Áhersla á tempó

Halldór Gylfason er auðvitað afskaplega fær í þessu leikhúsformi og hann var skemmtilegur í hlutverki sínu sem taugaveiklaði nágranninn. Þær Ilmur og Halldóra voru mjög góðar í sínum hlutverkum en því miður fengu áhorfendur alltof sjaldan að sjá þær sem hluta af atburðarrásinni, enda læstar inni í herbergjum meirihlutann af sýningunni. Þau Elma Stefanía og Hilmar voru sannfærandi sem ástfangnir unglingar, þótt orðfæri hinnar ungu Sísíar hafi orðið fljótt þreytt, en ekki er við leikkonuna að sakast þar. Á köflum var erfitt að skilja leikarana því áherslan var fyrst og fremst á það að halda tempóinu uppi allan tímann.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhus.is
Bergur Þór stelur senunni í sýningunni þegar hann birtist eftir hlé.

Bergur Þór Ingólfsson stígur ekki á svið fyrr en nokkuð er liðið á seinni helming sýningarinnar en hann birtist í hlutverki hins aldraða föður Steingríms. Bergur átti sviðið eftir að hann mætti og fór hamförum sem elliær karl sem ekki skilur upp né niður í tilverunni í kringum sig. Áður en ég held áfram er rétt að árétta að hér var sett upp sýning af fagmennsku, leikurinn góður og mikið hefur verið lagt í sýninguna sjálfa. En það er verkið sjálft sem ég neyðist til þess að setja stór spurningamerki við.

Ómeðvituð írónía

Verkið Úti að aka var fyrst sýnt í London árið 2001. Þó að verkið byggist á ákveðnum þáttum nútímans, að unglingarnir kynnist á snapchat og annað slíkt, þá er oftast eins og verkið sé að eiga sér stað á öðrum tíma, fjarri okkar veruleika. Plottið byggist á því að unglingarnir hafi kynnst í gegnum snjallsímaforrit en á öðrum stað kemur fram að þau eigi ekki síma. Grínið byggist mikið til á bröndurum sem ganga út á að karlmönnum þyki óþægilegt að vera í of mikill nánd hvor við annan og að karlmenn séu kallaðir konur.

Þessi brandarar virðast eiga heima í einhverjum allt öðrum samtíma en ég er hluti af í dag. Það virðist síðan setja punktinn yfir i-ið að karlpersónur verksins eru stöðugt að læsa kvenpersónurnar inni og halda þeim utan við þá atburðarrás sem á sér stað á sviðinu. Þegar þeir byrja að saka þær um að vera veikar á geði er ekki hægt annað en að sjá þá ómeðvituðu íróníu sem verður til og bendir okkur enn frekar á hversu illa þetta verk passar inn í samtíma okkar.

Ódýrir brandarar

Botninn á þessari tveggja tíma sýningu er síðan langur brandari sem byggist á því að persóna Hilmis Snæs þykist vera Kínverji sem vinnur á matsölustað, með tilheyrandi steríótýpískum búkhljóðum - brandari sem ég stóð í trú um að væri algjörlega úreltur í flestum kimum samfélagsins. Slíku efni er hér hins vegar endurtekið haldið á lofti.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhus.is
Cooder fellur í þá gryfju að gera lítið úr greind áhorfenda.

Í leikskrá sýningarinnar er stuttur texti eftir höfund verksins þar sem hann fer yfir sex reglur farsans. Síðasta regla Cooney snýst um að ekki megi vanmeta greind áhorfenda, að áhorfendum þyki gott að hafa fyrir hláturskastinu. Ég verð að segja að verkið Úti að aka gerir ekki ráð fyrir mikilli greind áhorfenda, nema síður sé. Ódýrir brandarar sem treysta á að áhorfendur hlægi þegar sjónrænar vísbendingar gefa til kynna að nú sé tími til þess að hlæja gera lítið úr áhorfendunum, auk þess sem þeir eru neyddir til þess að hlæja að bröndurum sem eru alls ekki fyndnir og gera lítið úr flestum þeim hópum samfélagsins sem í dag berjast fyrir aukinni virðingu og eðlilegum mannréttindum.

Það sem er fyndið – og það sem er úrelt

Á frumsýningu verksins mátti heyra hlátrasköll áhorfenda og það er ágætt þótt ég hafi ekki verið ein af þeim. Miðað við það grínefni sem listamenn okkar tíma eru stöðugt að skapa þá þykir mér undarlegt að verk á borð við Úti að aka sé sett á svið hjá einu af tveimur stóru leikhúsum landsins. Það er auðvelt að svara minni gagnrýni og spyrja hvort að öllu þurfi að taka svona alvarlega, hvort að svokallaður pólitískur rétttrúnaður sé að ganga af húmornum dauðum, en ég held að þvert á móti verðum við að gera greinarmun á því sem er fyndið og síðan því sem einfaldlega má henda í ruslið með stimplinum úrelt efni.