Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Oddviti Miðflokksins kemur á óvart í eldhúsinu

Mynd: RÚV / RÚV
Þorsteinn Sæmundsson oddviti Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hefur mikla ástríðu fyrir matargerð. Hann eldaði lunda og bauð upp á grafna hrefnu þegar hann hitti Ingileif Friðriksdóttur í nýjum þætti af Hvað í fjandanum á ég að kjósa?

Þorsteinn Sæmundsson er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins en segir að þrátt fyrir að samband hans við flokkinn sé jafn gamalt hjónabandi hans þá hafi Framsóknarflokkurinn yfirgefið sig, frekar en að hann hafi yfirgefið flokkinn. Hugmyndasmiðja flokksins hafi horfið með brotthvarfi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar yfir í hinn nýstofnaða Miðflokk. 

Þorsteinn fór yfir helstu málefni Miðflokksins sem snerta ungt fólk í komandi kosningum en tæpti einnig á afstöðu sinni varðandi kynferðisofbeldi sem hann álítur plágu í íslensku samfélagi. Hann segist brenna fyrir málefnum kvenna og álítur að fleiri karla vanti inn í umræðuna um kynbundið ofbeldi. 

Þetta er síðast flokkaþátturinn af Hvað í fjandanum á ég að kjósa? fyrir kosningar sem fara fram á laugardag. Tíu fulltrúar flokkanna hafa hitt Ingileif í vegferð hennar til að komast að því hvað hún ætlar að kjósa. Hægt er að horfa á alla þættina með því að smella á hnapp þáttarins hægra megin við þessa færslu. 

Lokaþáttur Hvað í fjandanum á ég að kjósa? verður sýndur eftir að kjörstöðum hefur verið lokað næstkomandi laugardagskvöld.