Oddvitar í hár saman á Facebook

Mynd með færslu
 Mynd:
Oddvitar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á Ísafirði eru komnir í hár saman á Facebook þar sem framsóknarmaðurinn sakar sjálfstæðismanninn um að hafa sagt ósatt í fjölmiðlum um samskipti þeirra fyrir kosningar í nefndir.

Þegar kosið var um fulltrúa flokkanna í nefndir Ísafjarðarkaupstaðar varð niðurstaðan sú að Framsóknarmenn fengu engin nefndarsæti þrátt fyrir að eiga einn fulltrúa í bæjarstjórn. Í-listinn, sem er í meirihluta, stillti fram einum lista með sínu fólki og oddvita Bjartrar framtíðar sem áður starfaði með Í-lista og fékk meirihluta nefndarsæta. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur stilltu upp hvor sínum listanum og varð niðurstaðan sú að sjálfstæðismenn fengu þau nefndarsæti sem eftir voru. Framsóknarmenn fengu engin nefndarsæti en áheyrnarfulltrúa í einstaka nefndum.

Marzellíus Sveinbjörnsson, oddviti Framsóknarflokksins, gerði málið að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í gær og birti þar smáskilaboð sem hann sendi Daníel Jakobssyni, oddvita Sjálfstæðisflokks, 11. júní síðastliðinn. „Sæll, værir þú til í að bjalla í mig...er að spái í nefndarmálin, og þá líka hvort við ættum að funda um framhaldið," segir í skilaboðunum. Við þetta tengir hann frétt á vef Bæjarins besta þar sem Daníel segir að engin ósk hafi borist frá Framsóknarflokknum um samstarf flokkanna þegar kom að kosningu í nefndir bæjarins. Niðurstaða þeirra kosninga var sú að Framsóknarflokkurinn fékk engan fulltrúa kosinn í nefndir bæjarins. Marzellíus er ósáttur við ummæli Daníels í fréttinni og þykir sem þau séu ekki í samræmi við samskipti þeirra. Hann klykkir út með orðunum: „Hafa skal það sem sannara reynist."

Daníel svarar Marzellíusi á Facebook og segist muna eftir skilaboðunum. Marzellíus hafi hins vegar hvorki í skilaboðunum né í símtali þeirra óskað eftir að Sjálfstæðismenn gæfu eftir sín sæti til Framsóknarflokksins. „Þú spurðir bara hvað ég væri að hugsa og ég sagði þér það." Annar bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði, Kristín Hálfdánardóttir, bætti sér í umræðuna og sagði Marzellíusi að það væri miklu betra að gera út um málin augliti til auglits heldur en að „demba á Facebook".

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi