Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Oddvitar: heilsa íbúa njóti vafans

Mynd með færslu
 Mynd:
Oddvitar allra framboða í borginni eru sammála um að heilsa fólks verði að njóta vafans þegar brennisteinsvetnismengun frá jarðvarmavirkjunum Orkuveitu Reykjavíkur er annars vegar. En útfærslur þeirra á lausn vandans er ólík. Þetta kom fram á fjölmennum íbúafundi í Norðlingaskóla í kvöld.

Íbúar í efri byggðum Reykjavíkur, umhverfisverndarsamtök, samtök sjúklinga og foreldrar skólabarna fengu oddvita framboðana í Reykjavík á fund um brennisteinsvetnismengun í kvöld. Þar voru þeir spurðir hvort þeir vildu grípa til aðgerða svo að brennisteinsvetni frá jarðvarmavirkjunum Orkuveitu Reykjavíkur yrði hreinsað að nær fullu á fyrri hluta næsta kjörtímabils. 

Oddvitar Framsóknar og flugvallarvina, Alþýðufylkingar og Dögunar svöruðu spurningunni öll játandi. Oddviti Sjálfstæðisflokks segir spennandi að hreinsa brennisteinsvetnið með samstarfi við fyrirtæki sem geti nýtt það í eldsneytisframleiðslu. Fulltrúi Pírata lofaði að kynna sér málið en vildi ekki lofa útgjöldum sem flokkurinn gæti ekki staðið við. 

Oddvitar Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar bentu á að það væri engin töfralausn til, það væru tilraunaverkefni í gangi til að leysa vandann. Samfylking væri með það á stefnuskrá sinni að draga úr menguninni, oddviti Vinstri grænna vill láta reisa stromp til að blása menguninni ofar á meðan verið væri að leysa vandann. Undir það tók oddviti Bjartrar framtíðar sem vill að það verði gert samtímis niðurdælingu.