Óbreytt áform um veg í Gálgahrauni

21.05.2013 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Bæjarstjórn Garðabæjar og Vegagerðin ætla ekki að breyta lagningu Álftanesvegar um Gálgahraun, að því er fram kemur fram í nýrri skýrslu.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra óskaði í apríl eftir því við vegamálastjóra og bæjarstjórann í Garðabæ að forsendur fyrir lagningu nýs kafla Álftanesvegar um Garða- og Gálgahraun yrðu endurskoðaðar. Kannað yrði hvort hægt væri að vinna að samgöngubótum í meiri sátt við náttúruverndarsinna. Lagningu vegkaflans hefur verið harðlega mótmælt þar sem verðmætt hraun eyðileggist. Vegagerðin og bæjarstjórn Garðabæjar hafa undanfarnar vikur unnið skýrslu um málið og var hún lögð fram í bæjarráði í morgun.

Niðurstaðan er að ekki sé ástæða til að hverfa frá þeirri ákvörðun sem tekin var um verkframkvæmdirnar á síðasta ári. Þá segir í greinargerðinni að forsendur fyrir færslu vegarins í nýtt vegstæði hafi verið vel rökstuddar og hafi verið festar frekar í sessi með uppbyggingu Prýðishverfisins. Engar forsendur hafi breyst um gerð vegarins og uppbyggingu í Garðabæ frá því umhverfismat framkvæmdarinnar var gert. Öll tilskilin leyfi séu fyrir hendi og verktaka hafi verið tilkynnt um að gengið verði til samninga við hann. Ef framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar frekar gæti það leitt til bótaskyldu gagnvart verktakanum. Enn fremur hafi íbúar við núverandi Álftanesveg lýst yfir hugsanlegri bótaskyldu á hendur Vegagerðinni og Garðabæ ef horfið yrði frá samþykktu skipulagi svæðisins.

Reynir Ingibjartsson, formaður náttúruverndarsamtakanna Hraunavina, segir niðurstöðuna vera mikil vonbrigði. Ekkert tillit sé tekið til náttúruverndarsjónarmiða.