
Óboðlegt ástand malarvega í Svalbarðshreppi
Á síðasta sveitarstjórnarfundi í Svalbarðshreppi var samþykkt harðorð bókun um ástand malarvega í sveitarfélaginu. Ástandið sé algjörlega óboðlegt og úrbóta sé þörf hið snarasta.
Ekkert viðhald á malarvegum í allt sumar
„Ástandið er þannig að í fyrsta skiptið í líklega fjóra áratugi er komið heilt sumar þar sem nákvæmlega ekkert hefur verið gert í þessu vegasambandi sem snýr að malarvegum," segir Sigurður Þór Guðmundsson oddviti Svalbarðshrepps. Malbikaður vegur liggur í gegnum Svalbarðshrepp en þess utan segir Sigurður allar tengingar íbúa í sveitarfélaginu liggja um malarvegi. Undanfarna áratugi hafi þessir vegir fengið eitthvað viðhald, þar til í ár. „Það hefur hvergi verið heflað, hvergi verið borið ofan í og hvergi verið löguð stika. Menn náttúrulega skilja ekki hvernig einhverjum dettur í hug að láta þetta vera svona," segir hann.
Forgangsröðunin ráðist af því hve margir kvarta
Á íbúafundi sem haldinn var nýlega var skorað á alþingismenn að færa forgangsröðun í viðhaldi vega aftur heim í hérað til sveitarstjórnarmanna. Alþingi og Vegagerðin séu greinilega ekki vandanum vaxin. „Núna ræðst forgangsröðun í vegamálum fyrst og fremst af því hve margir kvarta og hve mikið einhver getur þrýst á einstaka starfsmenn Vegagerðarinnar um hvar er hægt að gera eitthvað, frekar en af upplýstri ákvörðun kjörinna fulltrúa," segir Sigurður.