Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Óánægja með Gunnar Braga ekki óvænt

22.03.2015 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að óánægja með störf utanríkisráðherra í ESB-málinu hafi verið það sem búast mátti við. Hann segir að hvorki þing né þjóð hafi sótt um aðild að sambandinu heldur síðasta ríkisstjórn.

 

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ritaði á dögunum bréf til Evrópusambandsins, um að ríkisstjórnin ætlaði ekki að taka upp aðildarviðræður að nýju og liti svo á að þeim væri lokið. Það hefur vakið upp hörð viðbrögð að bréfið hafi verið sent áður en Alþingi fjallaði um málið. Þúsundir mótmæltu á Austurvelli í síðustu viku og þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa deilt hart á ríkisstjórnina.

Á föstudaginn birti Fréttablaðið skoðanakönnun sem sýnir að nærri tveir af hverju þremur kjósendum eru ósáttir við framgöngu utanríkisráðherra í málinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra telur að búast hafi mátt við þessum viðbrögðum. „Það kemur mér svo sem ekkert á óvart miðað hvernig umræðan um þetta mál hefur verið og það gerist nú ýmislegt skrýtið í Fréttablaðs-skoðanakönnunum, en það er önnur saga. Á heildina litið er þetta það sem mátti búast við, en engu að síður tel ég fullvíst að menn muni sjá að þetta hafi verið langbesta lendingin í þessu erfiða máli.“

Aðspurður hvort þetta sýni að þjóðin vilji að þingið fjalli um málið svarar Sigmundur Davíð: „Ég hugsa að þjóðin vilji hafa aðkomu að málinu sjálf og það er það sem vantaði á sínum tíma, því það var ekki þjóðin og ekki þingið sem sótti um, það var síðasta ríkisstjórn sem gerði það án þess að leita til þjóðarinnar. Nú er þetta aftur komið á þann stað að það verður ekki farið út í að reyna að komast inn í Evrópusambandið nema með heimild frá þjóðinni.“

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV