Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Óánægð með ávexti og grænmeti

13.10.2013 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Of margar kvartanir berast vegna lélegra ávaxta og grænmetis í verslunum, segir formaður Neytendasamtakanna. Framkvæmdastjóri Banana ehf., stærsta innflytjanda grænmetis og ávaxta hér á landi, furðar sig á þessu.

Í verslunum hér á landi er enga innlenda ávexti að fá, nema þá ber eins og jarðarber eða hindber. Þess vegna er innflutningur mikill. Sigurrós Pálsdóttir sem hefur unnið sem matreiðslumaður bæði í Danmörku og á Ítalíu segir stöðugt úrval kosta sitt. „Úti er miklu meira svona árstíðabundið hvað er í boði hverju sinni. Og hérna þá er bara allt í boði alltaf og það getur svolítið komið niður á gæðunum.“

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna segir kvartanir algengar. „Því miður er það svo að við fáum alltaf reglubundið, ég ætla ekki að segja mjög oft, en allvega of oft kvartanir vegna gæða.“
Þau ummæli vekja undrun Kjartans Más Friðsteinssonar, framkvæmdastjóri Banana ehf. „Ég er auðvitað mjög hissa á þessu því að við höfum lagt okkar metnað í það  að taka sem bestar og ferskasta ávexti hverju sinni,“ segir hann. „Það tekur viku að sigla þessu hingað síðan þarf það að vera hérna hjá okkur í 7 daga. Þannig að það gefur auga leið að vara sem er hérna, hún er eldri heldur en í Evrópu.“
Hann segir að eðli málsins samkvæmt séu erlendar afurðir talsvert eldri en aðrar. „Ef við tökum sem dæmi epli sem maður kaupir út í búð, hvað er langt síðan það var tínt? Eins og eplin sem eru núna, þau sem eru að koma frá Argentínu til að mynda, ætli þau hafi ekki verið tínd fyrir svona fjórum vikum. Þeir tína náttúrulega og geyma þetta hjá sér líka og eftir því sem það verður lengra liðið á uppskerutímann þá getur þetta orðið svolítið tæpara.“ Hann segir að elstu eplin séu um eins og hálfs mánaða gömul. 

Nánar verður fjallað um málið í Landanum í kvöld.