Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óafsakanlegt og óverjandi orðbragð

29.11.2018 - 12:14
Mynd:  / 
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að ummæli þingmanna úr Miðflokki og Flokki fólksins séu óafsakanleg og óverjandi. Hann segir sérstaklega sárt að svona hafi þingmennirnir rætt um konur og segir þetta ekki hjálplegt innlegg í það að efla traust á Alþingi.

„Ég er jafn eyðilagður og hver annar yfir þessu gjörsamlega óafsakanlega og óverjandi orðbragði sem þarna virðist hafa verið notað í þessum samtölum þingmanna. Sérstaklega finnst mér það sárt að svona skuli hafa verið talað um konur. Ég er eiginlega orðlaus yfir því og verður mér þó ekki oft orða vant,“ segir forseti þingsins.

Steingrímur biður fólk um skilning á því að þingið  þurfi tíma til að fara yfir hvernig tekið verði á ummælunum í viðeigandi stofnunum þingsins. Hann segir að þetta sé á dagskrá funda með formönnum þingflokka og forsætisnefnd á mánudag.

„Mér líður mjög illa. Mér finnst þetta hryllilegur atburður gagnvart því sem við erum á sama tíma að reyna, að leggja grunninn að því að efla traust á Alþingi. Við erum að opna hér stjórnsýsluna, veita meiri upplýsingar, gera störf þingsins gagnsærri og styrkja það um leið,“ segir Steingrímur J. „Þetta er ekki hjálplegt innlegg í það, svo mikið er víst. Þannig að þetta er óskaplega dapur dagur.“