Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Óábyrg ríkisstjórn helsta hættan

Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia-háskóla í New York segir að helsta hættan í íslensku efnahagslífi sé að næsta ríkisstjórn verði óábyrg þegar kemur að ríkisfjármálum. Fulltrúar ellefu framboða sitja fyrir svörum í sjónvarpssal í kvöld í öðrum málefnaþætti RÚV fyrir Alþingiskosningarnar.

Jón segir ekki hægt að gera allt, það sé ekki hægt að eyða tugum ef ekki hundruðum milljarða í niðurfellingu á skuldum heimilianna, lækka skatta og auka útgjöld til velferðarmála. „Einhvers staðar verður að velja nema að ríkisstjórnin ætli sér að halda á ný á braut óábyrgrar efnahagsstefnu sem ég tel að sé helsta hættan sem að steðji að, að næsta ríkisstjórn tileinki sér ekki ábyrga stefnu í ríkisfjármálum,“ segir Jón.

Hann bætir því við að sér sýnist kosningatékkarnir fyrir þessar kosningar vera mjög háir. „Það er kannski skiljanlegt, þetta er búin að vera erfið ár, síðust fjögur ár, fólk er kannski tilbúið til að láta vaða og fara í smá eyðslufyllerí en við bara höfum ekki efni á eyðslufylleríi eftir næstu kosningar.“